Innlent

Sorg og örvænting gæludýraeigenda: „Ég get ekki látið hana frá mér“

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Fólk safnaðist saman í dag fyrir framan skrifstofur hússjóðsins Brynju til að mótmæla því að gæludýr eru ekki lengur leyfð í leiguíbúðum á vegum hússjóðsins. Margir tóku dýrin sín með sér til að leggja áherslu á málstaðinn.

Meðal fólksins mátti greina sorg og örvæntingu en frá og með 15. maí síðastliðnum ákvað Brynja að byrja að framfylgja reglum sínum um almennt bann við gæludýrahaldi í íbúðum á vegum hússjóðsins.

Hildur Hjálmarsdóttir segist hafa fengið taugaáfall þegar hún fékk bréf um ákvörðun hússjóðsins.

„Ég fékk taugaáfall þegar ég fékk bréfið og veikindin hafa versnað,“ sagði hún og sagðist ekki myndu una því að láta lítinn smáhund sinn frá sér. „Ef hann fer, þá fer ég líka.“

Eva Dís Þórðardóttir þakkar það litlum hundi sínum að hún er að ná heilsu eftir erfitt þunglyndi og mótmælir forræðishyggju sem felst í banni á gæludýrum.

„Ég er búin að vera frá vinnu í þrjú ár vegna veikinda. Hann er búinn að vera hluti af mínu lífi í ár og það hefur haft mikil áhrif á mín lífsgæði. Ég er á móti svona forræðishyggju,“sagði hún og vildi taka samstöðu með íbúum húsanna.

Hulda Magnúsdóttir á litla kisu sem hefur glatt hana síðustu ár og er ákaflega leið yfir því að þurfa að láta hana frá sér.

„Ég get það ekki. Hún hjálpar mér svo mikið. Ég get ekki látið hana frá mér.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×