Enski boltinn

Swarbrick rak rangan mann út af | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manchester City vann öruggan 3-0 sigur á West Brom í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Wilfried Bony, Fernando og David Silva skoruðu mörk City en Englandsmeistararnir voru einum fleiri frá 2. mínútu þegar Gareth McAuley, miðvörður West Brom, fékk að líta rauða spjaldið. Atvikið má sjá í spilaranum hér að ofan.

Dómara leiksins, Neil Swarbrick, varð hins vegar á í messunni því hann rak vitlausan leikmann West Brom af velli.

Hægri bakvörðurinn Craig Dawson braut á Bony sem var kominn inn fyrir vörn West Brom en Swarbrick ákvað einhverra hluta vegna að reka McAuley út af. Leikmenn West Brom voru eitt spurningarmerki í framan en Swarbrick stóð fastur á sínu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn í vetur sem dómari í ensku úrvalsdeildinni rekur vitlausan mann út af. Á síðasta degi febrúar-mánaðar rak Roger East Wes Brown af velli þegar Sunderland beið lægri hlut fyrir Manchester United á útivelli, 2-0.

John O'Shea, félagi Brown í miðri vörn Sunderland, hefði með réttu átt að fá rauða spjaldið. Á endanum var spjaldið svo tekið til baka og hvorugur þeirra þurfti að taka út leikbann. Líklegt verður að teljast að sama niðurstaða fáist í máli McAuley og Dawson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×