Erlent

Fyrsti kvenforseti Króatíu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kolinda Grabar-Kitarovic
Kolinda Grabar-Kitarovic vísir/ap
Kolinda Grabar-Kitarovic er nýr forseti Króatíu eftir að hún hafði betur gegn sitjandi forseta, Ivo Josipovic. Hún er jafnframt fyrsti kvenforsetinn í sögu landsins.

Afar mjótt var á mununum en Grabar-Kitarovic hlaut fimmtíu prósent atkvæða og Josipovic prósenti minna. Í fyrri umferðinni, sem fram fór í desember, hlaut Josipovic 38% en nýi forsetinn 37%. Úrslitin koma nokkuð á óvart en lagasérfræðingurinn og klassíska tónskáldið Josipovic þótti afar vinsæll forseti.

Hin 46 ára Grabar-Kitarovic var á árunum 2003 til 2008 ráðherra í ríkisstjórn Króatíu. Fyrst sem Evrópumálaráðherra en síðar sat hún í stóli utanríkisráðherra.

Króatía er nýjasti meðlimur Evrópusambandsins eftir að hafa gengið í það árið 2013. Niðurstöður kosningarinnar benda til þess að íbúar landsins séu að sveiflast meira til hægri og frá núverandi ríkisstjórn. Þingkosningar munu fara fram í landinu síðar í ár og er talið líklegt að málefni er tengjast efnahaglandsins og atvinnumálum verði efst á baugi en um 20% Króata eru atvinnulausir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×