Innlent

„Það átti að skjóta þessu yfir hópinn en þetta átti að vera brunnið áður en það kom niður“

Birgir Olgeirsson skrifar
„Ég var þarna ekki langt frá og sá þegar þessu var skotið upp,“ segir Tómas Gíslason, sveitarforingi Hjálparsveitar skáta, um flugeldasýninguna sem haldin var undir lok Menningarnætur, afmælishátíðar Reykjavíkurborgar, í gærkvöldi. Vísir sagði frá því í morgun að neyðarblys hefði svifið logandi inn í áhorfendahóp við Arnarhól þegar sýningin stóð sem hæst.

Sigríður Soffía Níelsdóttir danshöfundur samdi flugeldasýninguna sem var tvískipt í ár og bar titilinn Stjörnubrim og himinn kristallast. Hluti verksins Stjörnubrim var samvinna við Hjálparsveit skáta sem skaut upp fjölda neyðarblysa í tengslum við sýninguna.

„Sólir eru þannig að þær svífa varlega til jarðar og eiga að vera útbrunnar áður en þær koma niður,“ segir Tómas um atvikið en hann segist hafa tekið eftir því að neyðarblysunum var skotið aðeins of mikið á ská.

Hann sagði ætlunin hafi verið að skjóta neyðarblysunum yfir áhorfendahópinn en eftir á að hyggja hefði mátt skjóta þeim hærra. „Það átti að skjóta þessu yfir hópinn en þetta átti að vera brunnið áður en það kom niður. En þetta voru engar sprengjur sem fóru þarna yfir. Þær fóru allar út á kæja og sprungu þar.“ Hann bendir á að hundruð og þúsund neyðarblysum sé skotið upp um áramótin en þau séu vanalega ekki logandi þegar þau lenda á jörðu.

Annars var Tómas ánægður með hvernig flugeldasýningin tókst til. „Það komu þarna nokkrar dramatískar þagnir sem gaf fólki tíma til að dást að henni.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×