Innlent

Hnífsstungan á Hverfisgötu: Hefur borið kennsl á árásarmanninn við myndsakbendingu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Maðurinn kannast við að hafa verið á vettvangi og lent þar í átökum. Hann segist ekki vera þekktur fyrir að slást með hnífum.
Maðurinn kannast við að hafa verið á vettvangi og lent þar í átökum. Hann segist ekki vera þekktur fyrir að slást með hnífum. vísir/þorgeir ólafsson
Maður sem grunaður er um að hafa stungið Sebastian Andrzej Golab í húsi við Hverfisgötu mun sitja áfram í gæsluvarðhaldi. Hæstiréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir honum. Sebastian hefur sjálfur borið kennsl á manninn við myndsakbendingu.



Lögreglan hlustaði á heimsóknir til mannsins á Litla-Hraun og þar mun hann hafa sagt gestum frá því að annar maður sem handtekinn var sé sá sem hafi stungið Sebastian. Fyrir helgi var honum boðið að gefa nýja skýrslu vegna málsins en hann taldi ekki ástæðu til að breyta fyrri framburði sínum.



Upplýsingarnar sem fram komu í umræddri heimsókn voru bornar undir hinn manninn sem neitaði alfarið sök og sagðist ekki skilja hvað manninum gengi til.

Mildi þykir að Sebastian hafi lifað árásina af. Hann var stunginn í gegnum hjartað og hnífurinn skildi eftir sig gat í hjartanu.Vísir/Ernir
Maðurinn sem grunaður er neitar sök í málinu en lögregla telur sig hafa sterkan grun um að sá hafi framið brotið. Hann segist þó kannast við að hafa verið á vettvangi og lent þar í átökum. Sebastian segir að atlagan hafi átt sér stað eftir að maðurinn lenti í átökum milli hans og annars manns.



Þegar maðurinn var handtekinn fannst blóð á fatnaði hans og höndum. Tíu sýni voru send til rannsóknar en ekki reyndist nægilegt magn DNA á úlpu hans og buxum til samkenningar. Á bol hans fundust DNA snið frá að minnsta kosti tveimur einstaklingum en sýni af höndum hans reyndust blóð úr honum sjálfum.



Samkvæmt hinum staðfesta gæsluvarðhaldsúrskurði kemur fram að maðurinn hefur verið yfirheyrður fimm sinnum vegna málsins en hafi neitað sök. Þá segist hann ekki vera þekktur fyrir að slást með hnífum en hann kannist við að ganga stundum með hníf á sér.

Athugasemd

Í frétt Vísis snemma í morgun sagði að maðurinn hefði sjálfur viðurkennt árásina. Það er ekki rétt. Vísir biðst afsökunar á þessum mistökum.


Tengdar fréttir

Varðhald yfir einum sakborningi framlengt í hjartastungumálinu

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fer fram á að gæsluvarðhald yfir einum manni verði framlengt til 12. janúar næstkomandi þar sem hann er grunaður um að hafa stungið Sebastian Andrzej Golab á Hverfisgötu þann 23. nóvember síðastliðinn.

Sterklega grunaður um hnífsstungu á Hverfisgötu

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir manni sem er undir sterkum grun að hafa stungið Sebastian Andrzej Golab á Hverfisgötu þann 23. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×