Innlent

Ungmenni líklegri til að lenda í fíknivanda eftir skilnað foreldra

Hætta er á að börn sem búa á tveimur heimilum upplifi síður að þau tilheyri einhverri heild. Fréttablaðið/Vilhelm
Hætta er á að börn sem búa á tveimur heimilum upplifi síður að þau tilheyri einhverri heild. Fréttablaðið/Vilhelm
velferðarmál „Að finnast maður tilheyra fjölskyldu er álitinn einn af mikilvægustu þáttunum til að koma í veg fyrir áhættuhegðun ungmenna og að þau leiðist út í fíkniefnaneyslu,“ segir Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi. „Það er því mikilvægt að fagfólk taki mið af þeirri staðreynd að í stjúpfjölskyldum er fólk ekki alltaf sammála um hver tilheyri fjölskyldunni og auðvelt að finnast maður útundan.“ Valgerður bætir við að hópur barna sem eigi foreldra á tveimur heimilum fari ört vaxandi og því þurfi að taka tillit til fjölskylduaðstæðna í allri forvarnarvinnu. Einnig að þau börn sem hafa reynt marga skilnaði séu í enn meiri áhættu. „Þeir þættir sem vega þyngst þegar kemur að áhættumati eru skert samskipti við foreldra, rofin tengsl við foreldri og röskun á ytri högum,“ segir hún og bætir við að þótt flestum þessara barna vegni vel sýni bæði erlendar og innlendar rannsóknir fram á þennan áhættuþátt. Hún vísar m.a. til rannsóknar Jóhönnu Rósu Arnardóttur sem sýnir fram á að þessi hópur ungmenna sé líklegri til að hafa notað vímuefni. Einnig að stærsti hópur barna í barnavernd eigi einhleypa foreldra og stjúpfjölskyldur. Valgerður ásamt Jónu Margréti Ólafsdóttur mun halda námskeið fyrir fagfólk sem ber heitið Frá fikti til fíknar. Þar verður sjónum beint að þessum þætti. „Með námskeiðinu erum við að vekja athygli á að það þarf að taka mið af aðstæðum barna þegar við vinnum með þeim og hvernig efla megi allt baklandið, fjölskyldur á tveimur heimilum og stjúpfjölskyldur.“ – ebg KVÓT: Þeir þættir sem vega þyngst þegar kemur að áhættumati eru skert samskipti við foreldra, rofin tengsl við foreldri og röskun á ytri högum. Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×