Innlent

Fríar strætóferðir frá Ásbrú verða lagðar af

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Leigjendur á Ásbrú munu frá áramótum ekki lengur eiga kost á fríum ferðum til og frá svæðinu líkt og boðið hefur verið upp á hingað til.
Leigjendur á Ásbrú munu frá áramótum ekki lengur eiga kost á fríum ferðum til og frá svæðinu líkt og boðið hefur verið upp á hingað til.
Háskólavellir, sem reka leiguíbúðir fyrir námsmenn á Ásbrú, hætta frá áramótum að bjóða upp á ókeypis ferðir milli svæðisins og Reykjavíkur.

Þjónustan hefur staðið leigjendum þar til boða og hafa margir sem stunda nám eða vinnu í Reykjavík nýtt sér hana. Í október skrifaði Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum undir samning við Strætó bs. um að annast skipulagningu og framkvæmd almenningssamgangna sem áður voru í höndum Reykjanes Express.

Ekki eru allir sáttir við þetta breytta fyrirkomulag. Leigjendur á Ásbrú sem Fréttablaðið ræddi við sögðust vera óánægðir með þessa breytingu þar sem þeir telja þessa þjónustu hafa verið hluta af leigusamningi þeirra. Þeir hafi gert leigusamninginn með þessi hlunnindi í huga og muni þetta þýða mikinn aukakostnað fyrir þá. Einn þeirra sem Fréttablaðið ræddi við sagðist hafa gert framhaldsleigusamning um mitt þetta ár og þá hafi ekki verið tekið fram að þjónustunni yrði hætt.

Ingvar Jónasson, framkvæmdastjóri Háskólavalla, segir breytinguna vera tilkomna vegna tvenns; sparnaðar í rekstri og vegna breytts fyrirkomulags, en Háskólavellir hafi haft samning við Reykjavík Express um að bjóða leigjendum sínum upp á þessa þjónustu. „Við höfum verið að bjóða upp á þetta frá upphafi sem aukaþjónustu við okkar íbúa,“ segir Ingvar.

„Það hefur verið tekin ákvörðun um að þetta verður ekki með sama sniði og þetta er núna. Hvort eitthvað annað gerist eða hvernig akstri verður yfirleitt háttað hef ég ekki upplýsingar um.“

Ingvar segist skilja að þetta muni koma illa við einhverja leigjendur en þetta hafi verið hlunnindi sem muni því miður líklega ekki vera hægt að bjóða upp á lengur.

„Við erum enn þá að veita íbúunum mjög góða þjónustu varðandi leigu og annað. Þannig að það er ekki að breytast. Við erum enn þá með mjög hagstæð kjör fyrir okkar viðskiptavini. Stundum verða breytingar,“ segir Ingvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×