Lífið

Kóngurinn ætlar að mæta í þyrlu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jósef „Presley“ Ólason lofar góðu stuði á Elvis-hátíðinni í kvöld.
Jósef „Presley“ Ólason lofar góðu stuði á Elvis-hátíðinni í kvöld. vísir/stefán
„Já, auðvitað lifir kóngurinn og hann mætir, ætli hann komi ekki í þyrlu,“ segir Jósef „Presley“ Ólason, stofnandi Elvisklúbbsins á Íslandi, spurður út í hvort Elvis Presley sjálfur mæti á hátíðina í kvöld. Klúbburinn stendur fyrir mikilli hátíð í kvöld á skemmtistaðnum Gullöldin í Grafarvogi þar sem alvöru Elvis-stemning mun ráða ríkjum.

„Við verðum með ýmislegt í gangi. Við byrjum á því að horfa á Elvis-tónleika á breiðtjaldi, svo bjóðum við upp pitsuhlaðborð og alvöru Elvis-samlokur. Við verðum svo með karókí þannig að það geta allir tekið lagið,“ útskýrir Jósef.

Jósef ætlar að taka nokkur lög sjálfur ásamt Magnúsi Paul Korntop en hann hvetur fleiri til að taka lagið. „Menn mega ekki vera hræddir þó ég sé bestur,“ segir Jósef og hlær.

Hann hvetur alla aðdáendur kóngsins til þess að mæta og njóta kvöldsins. „Ég vonast til þess að sjá sem flesta, það væri gaman að sjá fleiri eftirhermur,“ bætir Jósef við, en hann hefur verið talinn ein besta Elvis-eftirherma landsins. „Það eru margar eftirhermur sem vilja græða á honum og eru að lita hárið og fara í húðstrekkingu. Mér finnst bara nóg að vera með svart hár og bartana.“

Það er nóg fram undan hjá klúbbnum því stórir hlutir er á döfinni. „Eftir þetta kvöld förum við að skipuleggja stórafmæli Elvisklúbbsins því við verðum fimmtán ára á næsta ári og ætlum að fagna því með stæl,“ bætir Jósef við.

Frítt er inn á Elvis-hátíðina í kvöld og hefst hún klukkan 21.00 á Gullöldinni í Grafarvogi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.