Tíska og hönnun

Vekur athygli í Þýskalandi

Elín Albertsdóttir skrifar
Heiðrún Ósk Sigfúsdóttir hannar kjóla og skyrtur með landslagsmyndum úr íslenskri náttúru. Hönnunin hefur vakið athygli í Þýskalandi jafnt og hér á landi. Myndin er tekin við Kleifarvatn. Myndin á kjólnum er eftir RAX.
mynd/emil þór sigurðsson
Heiðrún Ósk Sigfúsdóttir hannar kjóla og skyrtur með landslagsmyndum úr íslenskri náttúru. Hönnunin hefur vakið athygli í Þýskalandi jafnt og hér á landi. Myndin er tekin við Kleifarvatn. Myndin á kjólnum er eftir RAX. mynd/emil þór sigurðsson
Heiðrún Ósk Sigfúsdóttir viðskiptafræðingur stofnaði hönnunarfyrirtækið Dimmblá á síðasta ári sem fengið hefur afar góð viðbrögð, nú síðast frá Þýskalandi. Tímaritið Süddeutsche Zeitung fjallar um hönnun hennar á ferðasíðum.

Heiðrún er mikið náttúrubarn en hefur jafnframt áhuga á tísku og hönnun. Hún fékk þá hugmynd á síðasta ári að blanda þessum tveimur áhugamálum saman. Jöklar, firðir, norðurljós, ár og fossar birtast í fallegum kjólum, skyrtum og hálsklútum með aðstoð færustu ljósmyndara landsins. Heiðrún ákvað að nota ljósmyndir af landslaginu til að gæða efnið lífi. Hún fékk strax jákvæðar undirtektir hjá ljósmyndurum um samstarf en þeim fannst þetta spennandi verkefni. Myndir Sigurðar Hrafns Stefnissonar og Ragnars Axelssonar skreyta silkikjóla sem falla vel að líkamanum.



Styrkir Landvernd

„Ég kom með fyrstu hönnunarlínuna mína í desember á síðasta ári. Ævintýrið vakti fljótt athygli og þróunin hefur verið afar jákvæð,“ segir Heiðrún. „Mig langaði til að vekja athygli á hönnun minni utanlands og hafði samband við kynningarfulltrúa Icelandair og kynnti vöruna fyrir honum. Hann fékk áhuga og bauð blaðamanni frá þýska blaðinu Süddeutsche Zeitung hingað til lands. Tekið var viðtal við mig í apríl sem birtist í blaðinu núna. Það sem vakti athygli blaðamannsins var tenging íslenskrar náttúru við tískuhönnun og ekki síst að ég læt hluta ágóðans renna til Landverndar. Einnig er viðtal við framkvæmdastjóra Landverndar sem fjallar meðal annars um fyrirhugaðar virkjanir á hálendi Íslands og náttúrupassa,“ greinir hún frá.



Heiðrún segist alltaf hafa verið ákveðin í að stofna eigið fyrirtæki. „Ég hef ferðast mikið um landið og er mjög heilluð af íslenskri náttúru. Mig langaði til að kynna náttúruna með fallegum myndum eftir íslenska landslagsljósmyndara. Þegar hugmyndin var fædd ákvað ég að láta slag standa og framkvæma. Þetta var ólíkt því sem margir aðrir voru að gera. Sigurður Hrafn er einn okkar fremsti ljósmyndari í því að festa norðurljósin á filmu. RAX er sömuleiðis einn af okkar bestu ljósmyndurum og það er gaman að vinna með þeim báðum.“

Greinin sem birtist um Heiðrúnu í þýska tímaritinu Süddeutsche Zeitung.
Óstöðvandi náttúra

„Ný lína er væntanleg í lok ágúst og þar verða myndir RAX í aðalhlutverki. Ég ætlaði að koma með sumarlínu í vor en vanmat tímann sem fór í framkvæmdina. Á lokasprettinum fékk ég Unu Hlín Kristjánsdóttur tískuhönnuð í samstarf með mér en hún er einstaklega fær og kemur með skemmtilegar hugmyndir. Við leggjum áherslu á að nota einungis vönduð efni eins og silki. Myndirnar koma einstaklega vel út á silki. Ég hef gefið nýju línunni nafnið Relentless. Allar ljósmyndirnar eru teknar úr lofti og má lýsa þeim sem hinni óstöðvandi náttúru landsins. Vatnajökull kemur við sögu, Landmannalaugar og Skeiðarársandur auk fleiri fallegra staða sem gefur mikla fjölbreytni í litum.

Það er mjög gaman að sjá hvernig myndirnar koma út í efninu,“ segir Heiðrún og bætir við að það hafi verið einstaklega skemmtilegt að vinna með ljósmyndurunum. „Nýja línan verður sannkallað augnakonfekt,“ segir hún.

Nýju efnin Í haustlínunni verða efnin myndskreytt eftir RAX.
Góðar viðtökur

Heiðrún hefur strax fengið mikil viðbrögð og fyrirspurnir frá áhugasömum seljendum í Þýskalandi eftir að greinin birtist. „Það er gaman að fá þessi viðbrögð og þau eru hvatning til að kynna vöruna meira á erlendum markaði. Ég er rétt að byrja og hef miklar væntingar með framhaldið. Nokkrar verslanir selja vörur mínar hérlendis, til dæmis Kraum og Islandia en hægt er að kynna sér vöruna á heimasíðunni, dimmbla.is. „Ég hef lagt ríka áherslu á að hanna flíkur sem eru tímalausar og þægilegar.“



Heiðrún segist einnig vera ánægð með viðtökurnar hér á landi. „Ég hef fengið einstaklega góð viðbrögð og mikið hrós. Þetta hefur verið mikil en ánægjuleg vinna en ég hef mikla ástríðu fyrir því sem ég er að gera,“ segir Heiðrún sem hefur sömuleiðis nóg að gera sem móðir tveggja drengja, tveggja og fjögurra ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×