Íslenski boltinn

FH-vörnin sú besta í 26 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Varnarmennirnir öflugu í liði FH.
Varnarmennirnir öflugu í liði FH. Grafík/fréttablaðið
FH-ingar eru með tveggja marka forystu á toppi Pepsi-deildar karla þegar níu umferðir eru að baki og geta fyrst og fremst þakkað það þéttum varnarleik liðsins en markvörðurinn Róbert Örn Óskarsson hefur aðeins þurft að sækja boltann þrisvar sinnum í netið á fyrstu 810 mínútum tímabilsins.

FH hefur enn ekki tapað leik í deildinni í sumar en hefur gert jafntefli í öllum þremur leikjum sínum þar sem Hafnfirðingar hafa fengið á sig mark. FH hefur því unnið alla sex leikina þar sem liðið hefur haldið hreinu, þar af fjóra þeirra 1-0. FH-ingar eru því á toppnum þrátt fyrir að hafa aðeins skorað meira en eitt mark í tveimur af níu leikjum sínum.

Það þarf að fara alla leið til ársins 1988 til að finna betri byrjun í varnarleik í efstu deild en Fram fékk aðeins á sig tvö mörk í fyrstu níu leikjunum 1988. FH hefur jafnað afrek ÍA frá 1995 en Skagamenn fengu þá líka aðeins þrjú mörk á sig. Bæði Framliðið frá 1988 og ÍA-liðið frá 1995 urðu Íslandsmeistarar með sannfærandi hætti.

Fimm leikmenn hafa oftast nær skipt með sér leikstöðunum fjórum í varnarlínu FH-liðsins í sumar en Hafnarfjarðarliðið missti fyrirliðann, Guðjón Árna Antoníusson, í meiðsli eftir aðeins tvo leiki.

Bandaríkjamaðurinn Sean Michael Reynolds hefur leyst af bæði sem bakvörður og miðvörður en samkvæmt tölfræðinni er besta varnarlína FH í sumar þegar Jón Ragnar Jónsson og Böðvar Böðvarsson spila í bakvörðunum og þeir Pétur Viðarsson og Kassim Doumbia eru miðverðir.

Þessi varnarlína hefur spilað saman í 249 mínútur í Pepsi-deildinni í sumar og ekki enn fengið á sig mark.

Mest munar um Malímanninn Kassim Doumbia en það hafa liðið 349 mínútur milli marka hjá mótherjum FH þann tíma sem hann hefur verið inni á vellinum. Doumbia kom til liðsins fyrir tímabilið og er mikill happafengur fyrir Heimi Guðjónsson.

FH-ingar leika sinn tíunda leik í kvöld þegar þeir fá Valsmenn í heimsókn í Kaplakrika en á sama tíma spila Fram og Stjarnan í Laugardalnum. Lið ÍA frá 1995 og lið Fram frá 1988 héldu bæði hreinu í tíunda leik sínum.

Fæst mörk á sig í fyrstu 9 leikjunum 1977-2014:

2 mörk á sig

Fram 1988

3 mörk á sig

FH 2014

ÍA 1995

4 mörk á sig

Valur 2011  

ÍA 1994

KR 1991

Valur 1989

Valur 1986

KR 1982

Breiðablik 1981

KR 1979

FH-metið:

3 mörk á sig

2014

5 mörk á sig

1994, 2005 og 2006

6 mörk á sig

2001 og 2009




Fleiri fréttir

Sjá meira


×