Lífið

Óraunverulegt að sjá Aron spila

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Móðir Arons, Helga Guðmundsdóttir, Bergþóra Tómasdóttir, móðir Bryndísar, Bryndís og faðir Bryndísar, Stefán Eyjólfsson, keyptu sér bandarískar landsliðstreyjur fyrir leikinn á móti Portúgal. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli.
Móðir Arons, Helga Guðmundsdóttir, Bergþóra Tómasdóttir, móðir Bryndísar, Bryndís og faðir Bryndísar, Stefán Eyjólfsson, keyptu sér bandarískar landsliðstreyjur fyrir leikinn á móti Portúgal. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli.
„Stemningin hér er svakaleg og ólík öllu því sem ég hef áður upplifað,“ segir Bryndís Stefánsdóttir, kærasta Arons Jóhannssonar, sem spilar fyrir hönd Bandaríkjanna á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem fram fer í Brasilíu um þessar mundir.

Aron valdi eins og kunnugt er að spila fyrir bandaríska landsliðið en hann er með tvöfalt ríkisfang og gat því valið á milli Íslands og Bandaríkjanna. Hann er því fyrsti Íslendingurinn sem spilað hefur á HM í knattspyrnu.

Bryndís segir að þegar það lá ljóst fyrir að Aron yrði í bandaríska landliðshópnum hafi fjölskyldan ákveðið að halda til Brasilíu og styðja við bakið á honum og landsliðinu. Það var svo strax í fyrsta leik Bandaríkjanna í riðlakeppninni að Aron fékk að spreyta sig á vellinum en sóknarmaðurinn Jozy Altidore meiddist snemma í leiknum og var Aroni í kjölfarið skipt inn á. 

Bryndís teiknaði treyjunúmer Arons á kinnina fyrir leikinn en Aron spilar í treyju númer níu.
„Tilfinningin að sjá hann koma inn á var mjög óraunveruleg en á sama tíma var ég að rifna úr stolti og var alveg virkilega ánægð fyrir hans hönd. Ég sat algjörlega stjörf og horfði á allan leikinn en það gerist alls ekki oft,“ segir Bryndís, sem sjálf hefur engan brennandi áhuga á íþróttinni og átti það meira að segja til að taka með sér bækur á völlinn

„Þegar Aron spilaði með AGF í Danmörku var ég í Verzló en þurfti að nýta hvern tíma til þess að læra því ég var mikið frá skólanum. Þetta voru því mestmegnis skólabækur en það kom alveg fyrir að Arnaldur fékk að fylgja með á völlinn. Ég hef þó ekki enn þorað að mæta með bók á völlinn hjá AZ Alkmaar og bækurnar eru algjör óþarfi á HM.“

Fjölskyldan hélt út hinn 19. júní og var mætt á völlinn þegar Bandaríkin mættu Portúgal í öðrum leik riðilsins. „Það var algjörlega magnað að heyra alla bandarísku stuðningsmennina hvetja liðið, þeir eru með svakalegt stuðningslið. Við erum í Sao Paulo og hér er fólk úti um allt í landsliðstreyjum sinna liða með fána og í þvílíku stuði,“ segir Bryndís, en íslenski stuðningshópurinn verður í Brasilíu fram að mánaðamótum og ætlar svo að taka ákvörðun um framhaldið.

Aron fagnar marki samherja síns í fyrsta leik riðlakeppninnar.Vísir/AP
.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.