Innlent

Fæstir segjast treysta utanríkisráðuneytinu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
1,8 prósent kveðst bera fullkomið traust til menntamálaráðuneytisins, 8,3 prósent mjög mikið traust og 18,9 frekar mikið.
1,8 prósent kveðst bera fullkomið traust til menntamálaráðuneytisins, 8,3 prósent mjög mikið traust og 18,9 frekar mikið. Fréttablaðið/Stefán
Mennta- og menningarmálaráðuneytisins nýtur mests trausts samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. 29 prósent sögðust bera til þess mikið traust.

Um leið má lesa út úr könnuninni að heldur fleiri segist vantreysta ráðuneytinu, eða 41,3 prósent, þegar tekin eru saman svör þeirra sem segjast bera til ráðuneytisins frekar lítið, mög lítið eða alls ekkert traust.

Minnst traust var hins vegar á utanríkisráðuneytinu, en nær 54 prósent báru lítið traust til þess. Breytingin frá fyrri könnun sem gerð var um mánaðamótin nóvember desember síðastliðin er töluverð en þá var samanlagt vantraust á ráðuneytinu 44,2 prósent.

Vantraust á ráðuneytinu hefur því aukist um 9,3 prósentustig á milli kannana Þjóðarpúls Gallup.

Capacent Gallup segir miklu muna á afstöðu til ráðuneyta eftir því hvaða flokka fólk sagðist kjósa. „Í öllum tilfellum báru þeir sem kysu stjórnarflokkana talsvert meira traust til ráðuneytanna en þeir sem kysu aðra flokka.“

Þá kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins að fólk utan höfuðborgarsvæðisins hafi borið meira traust en íbúar höfuðborgarsvæðisins til allra ráðuneyta.

„Og fólk 35 ára og eldra bar meira traust en yngra fólk til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.“

Þjóðarpúlsinn er netkönnun sem fór fram dagana 20. febrúar til 10. mars. Í úrtaki voru 1.400 einstaklingar 18 ára og eldri og svarhlutfall 62,4 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×