Innlent

Koma til móts við starfsfólk

Freyr Bjarnason skrifar
Til stendur að flytja útgerðarfyrirtækið Vísi hf. til Grindavíkur á næsta ári.
Til stendur að flytja útgerðarfyrirtækið Vísi hf. til Grindavíkur á næsta ári. Fréttablaðið/Hari
Forsvarsmenn útgerðarfyrirtæksins Vísis hf. funduðu með Ísafjarðarbæ í gær vegna fyrirhugaðs flutnings fyrirtækisins frá Þingeyri. „Við vorum skýrir um hvað við erum sammála um og ósammála um. Að öðru leyti var þetta góður fundur,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf., aðspurður.

„Við ætlum að vinna saman í því að nota þennan tíma vel sem er framundan til að milda afleiðingarnar af þessu, ef af þessu verður, og gera allt sem við getum til að koma til móts við starfsfólk og umhverfið.“

Til stendur að Vísir hf. flytji til Grindavíkur á næsta ári. Fyrirtækið er með starfsemi suður með sjó en einnig á Þingeyri, Djúpavogi og Húsavík. Á hverjum þessara staða starfa tugir manns við fiskvinnslu.

Pétur Hafsteinn fundaði einnig með starfsfólki Vísis hf. á Þingeyri í gær og sagði hljóðið í því vera ágætt. „Ég bað það um að vera rólegt. Við höfum þennan tíma fyrir okkur og útilokum ekki neitt og nálgumst málið áfram með það að leiðarljósi að það þurfi enginn að missa vinnuna,“ segir hann.

„Fólkið tekur þessu með stóískri ró. En ég geri mér alveg grein fyrir því að það er áhyggjufullt. Ég bað það um að gefa okkur tíma og hafa ekki of miklar áhyggjur. Óvissa er alltaf vond en alla vega er næsta ár óbreytt.“

Fjallað hefur verið um byggðakvóta og meintar ívilnanir til Vísis. Fyrirtækið gaf út yfirlýsingu í gær þar sem það áréttaði að það rúmlega tuttugufaldaði þann kvóta sem úthlutað var til byggðarlagsins og útgerðinni var falið að afla á árunum 2000 til dagsins í dag. Þar sagði einnig að á síðustu þrettán árum hefur fyrirtækið lagt samfélaginu til veruleg verðmæti þar sem hlutur byggðakvótans var hverfandi. „Þessi byggðakvóti hefur ekki talið neitt á seinni árum. Við höfum stundum sagt að þetta fer eitthvað upp í flutninga,“ segir Pétur Hafsteinn.

Vísir hefur á síðustu fimm árum samanlagt fengið 623 tonna byggðakvóta úthlutað á Þingeyri, Djúpavogi og Húsavík. Á sama tíma hefur fyrirtækið samanlagt unnið tæp 50 þúsund tonn af fiski í bæjarfélögunum. „Menn geta verið ósáttir við ákvörðunina núna [um flutninginn til Grindavíkur] en hingað til hafa menn á öllum stöðum verið ánægðir með hvernig höfum unnið með umhverfinu,“ segir Pétur. „Ég er svolítið ósáttur við það ef menn eru að grafa upp þá hluti sem menn hafa verið ánægðir með hingað til og gera þá að einhverjum málum.“

Varðandi starfsfólk Vísis í bæjarfélögunum bætir hann við: „Við meinum það þegar við segjum að við ætlum að leggja mikið upp úr því að þetta verði einungis breyting en ekki starfslok. Að fólk sé annað hvort að fá nýja vinnu á sama stað eða sömu vinnu á nýjum stað. Við meinum það og vonandi verðum við dæmdir eftir því í lokin. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×