Innlent

Ný stofnun sem hefur eftirlit með félagsþjónustu

Stofnunin mun meðal annars hafa eftirlit með þjónustu sveitarfélaganna í barnaverndarmálum og veita þjónustuaðilum ráðgjöf.
Stofnunin mun meðal annars hafa eftirlit með þjónustu sveitarfélaganna í barnaverndarmálum og veita þjónustuaðilum ráðgjöf. vísir/gva
Skoðað verður á næstunni hvort ný stjórnsýslustofnun verði sett á stofn til að hafa umsjón með verkefnum ríkisins á sviði félagsþjónustu og barnaverndar. Einnig myndi stofnunin hafa eftirlitshlutverk til að tryggja gæði þjónustunnar sem verið er að veita í málaflokkunum.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra kynnti hugmyndina á ríkisstjórnarfundi á mánudaginn síðastliðinn.

„Vinna við mótun fjölskyldustefnu hefur lengi verið í gangi í ráðuneytinu. Umfjöllun um úrræði fyrir börn í vanda og ábendingar, sem við höfum fengið um að tryggja þurfi betur gæði og eftirlit í félagsþjónustunni almennt, varð til þess að ég taldi rétt að skipa starfshóp til að beina sjónum að þeim málum. Hópurinn mun skoða hvernig megi útfæra þetta betur og þá sérstaklega hugmyndina um nýja stjórnsýslustofnun sem tæki við þessu eftirlitshlutverki,“ segir Eygló.

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra.FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Hún segir að horft sé til danskrar fyrirmyndar en þar í landi starfar stofnunin Socialstyrelsen undir félagsmálaráðuneytinu. Ýmis verkefni sem hafa verið í höndum Barnaverndarstofu eða eru unnin innan velferðarráðuneytisins í tengslum við félagsþjónustu sveitarfélaga munu þá flytjast yfir til þessarar nýju stofnunar. 

Verkefnin eru túlkun laga, umsýsla og ráðgjöf við þá sem þjónusta börn, fatlað fólk, aldraða og innflytjendur auk Íslendinga í vanda erlendis. 

„Sveitarfélögin hafa verið í auknum mæli að taka við verkefnum á sviði félagsþjónustunnar og hafa að mínu mati sinnt því mjög vel. Ríkið þarf aftur á móti að tryggja að það sé gott eftirlit og gæði í þjónustunni sem er veitt um allt landið. Þetta er viðamikið verkefni og við þurfum að vanda okkur því við erum með viðkvæmustu einstaklingana í samfélaginu undir. Starfshópurinn mun því leita leiða til að ríkið geti stutt sem best við sveitarfélögin, eflt þau enn frekar, og þetta er ein hugmyndin,“ segir Eygló og bætir við að einnig verði lögð áhersla á snemmtæka íhlutun vegna vanda barna og unglinga þar sem horft verði til samstarfs við heilbrigðisráðherra. 


Tengdar fréttir

Börnin á brúninni: Vistin gaf mér von

Aldís Ósk Egilsdóttir var á meðferðarheimilum frá 13 til 18 ára aldurs. Hún vildi aldrei hætta í neyslu en segir stofnanirnar nauðsynlegar til að kippa börnum úr skaðlegum aðstæðum. Foreldrar barna í vanda segja inngripin þurfa að gerast fyrr og vera yfirgripsmeiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×