Innlent

Sjálfsagt að kennaralaunin séu lág

Snærós Sindradóttir skrifar
Illugi Gunnarsson ávarpaði þingið í gær og ræddi almenn sóknarfæri í menntakerfinu. Hann vill stórbæta læsi ungmenna og minnka brottfall úr framhaldsskólum.
Illugi Gunnarsson ávarpaði þingið í gær og ræddi almenn sóknarfæri í menntakerfinu. Hann vill stórbæta læsi ungmenna og minnka brottfall úr framhaldsskólum. Fréttablaðið/Valli
Kennaraþing Kennarasambands Íslands (KÍ) var sett á Grand Hóteli í gær. Þingið er haldið í skugga verkfalls framhaldsskólakennara sem staðið hefur yfir í á þriðju viku.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, vék ekki að kjarabaráttu kennara í ræðu sinni við upphaf þings. Hann sagði að yfirstandandi samningaviðræður ættu ekki að fara fram í fjölmiðlum eða á ráðstefnu sem þessari. „Það er miklu stærra mál sem hér er verið að ræða. Hér er verið að ræða menntakerfið í heild sinni en ekki bara kjaradeiluna. Ég vil leggja áherslu á almenn atriði sem við eigum að geta náð samstöðu um. Við þurfum að bæta frammistöðu framhaldsskólanema,“ sagði hann.

„Við þurfum að bæta lesskilning og starfsemina á grunnskólastiginu þar af leiðandi. Við þurfum að efla heimilin í að taka þátt í lestrarkennslu. Þetta eru mikilvæg atriði burtséð frá þeirri kjaradeilu sem nú er uppi. Umræðan um kaup og kjör núna fer fram við samningaborðið.“

Þórður Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, sagði það dapurlegt að setja Kennaraþing þegar stór hluti félagsmanna væri í verkfalli. Hann sagði að stjórnmálamönnum þætti sjálfsagt að kennarastéttin væri illa launuð og kallaði eftir auknu fjármagni til skólastarfsins. „Þróunin frá hruni hefur verið sú að kennarar dragast aftur úr. Það launaskrið sem Seðlabankinn er farinn að gera ráð fyrir í sínum viðmiðum er ekki til staðar hjá kennurum. Við erum tilbúin að setjast niður um ákveðnar kerfisbreytingar en forgangurinn er launamál og við verðum að fá botn í þau áður en við stígum í aðra vinnu.“

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, var óánægð með að menntamálaráðherra hefði ekki talað um yfirstandandi kjaradeilu við setningu þingsins í gær. „Brýnasta verkefni menntamálaráðherra núna er að beita sér fyrir lausn í kjaradeilu framhaldsskólakennara og koma skólanum til starfa á ný. Ég hef ekki séð mikið af ráðherranum tjá sig né beita sér í þessari kjaradeilu. Þó að fjármálaráðherra haldi um veskið hlýtur það að vera faglegur ráðherra menntamála sem á að knýja á um að fá fjármuni inn í sitt ráðuneyti.“

Formaður KÍ lýsti í ræðu sinni yfir áhyggjum af því að fáir sæktu í kennaranám vegna lágra launa. Laun íslenskra kennara væru fyrir neðan meðaltal OECD-ríkjanna. Formaður Félags framhaldsskólakennara tók undir áhyggjurnar, „Hvernig eigum við að laða að hæfa kennara til að sinna kennslu þegar framhaldsskólakennarar eru rétt hálfdrættingar í launum á við kollega sína á Norðurlöndunum? Það hefur verið bent á það í alþjóðaskýrslum að það þurfi að hækka laun íslenskra kennara til að viðhalda nýliðun í stéttinni,“ sagði Guðríður.

Kennaraþing KÍ stendur yfir fram á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×