Innlent

Á sjöunda þúsund vatnstjóna verða á ári

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Það geta fylgt því mikil óþægindi og rask að verða fyrir vatnstjóni og oft þarf að endurnýja innréttingar, gólfefni og flísar.
Það geta fylgt því mikil óþægindi og rask að verða fyrir vatnstjóni og oft þarf að endurnýja innréttingar, gólfefni og flísar. Vísir/vís
Milljarða eignatjón, óþægindi og jafnvel heilsutjón verður vegna vatnsleka, raka og myglu á íslenskum heimilum ár hvert.

Sumt af því bæta tryggingafélögin og er kostnaður þeirra við vatnstjón tæpir tveir milljarðar á síðasta ári. Í um þrjátíu prósent tilfella, eða í 1.500 tilfellum af 5.200, er vatnstjónið ekki bótaskylt.

Kostnaður vegna tjóns sem ekki fæst bætt er ekki þekktur en ef reiknað er meðaltjón sem tryggingafélögin bæta einstaklingum, sem er þrjú hundruð þúsund krónur, þá má áætla að einstaklingar þurfi að taka á sig tæplega fimm hundruð milljónir króna á ári vegna vatnstjóna sem ekki eru bótaskyld. Jafnvel þótt tjón séu bótaskyld þurfa einstaklingar að greiða eigin áhættu, eða sjálfsábyrgð, upp á tæpar þrjú hundruð milljónir á ári.

Samstarfshópur um varnir gegn vatnstjóni var stofnaður á síðasta ári vegna þess mikla kostnaðar sem fylgir vatnstjóni og fjölda tilvika. Til samanburðar er kostnaður vegna eignatjóns í eldsvoðum 1.239 milljónir árið 2013 eða tæplega helmingi minni en vegna vatnstjóna.

Samstarfshópurinn hefur gefið út leiðbeiningar fyrir almenning til að draga úr tjóni vegna vatnsleka. Annars vegar leiðbeiningar til að minnka líkur á vatnstjóni, til dæmis með réttu viðhaldi og endurnýjun lagna með aðstoð fagmanna. Hins vegar með því að leiðbeina um fyrstu viðbrögð við leka; meðal annars loka strax fyrir vatnsinntak, hafa samband við tryggingafélagið og þurrka vel upp eftir vatnstjón svo ekki myndist raki og mygla í húsum.



Birna Ásmundsdóttir Olsen lenti í vatnstjóni vegna ofns sem lak í stofunni.Vísir/Valli
Svakalegt umstang 

Birna Ásmundsdóttir Olsen og maðurinn hennar lentu í því óláni að vatn lak úr gömlum ofni inni í stofu. „Nágrannar okkar vöktu okkur snemma á sunnudagsmorgni og sögðu okkur að vatn læki niður loftið í þeirra íbúð,“ segir Birna. „Ef þau hefðu ekki orðið vör við lekann þá hefði þetta orðið miklu verra.“

Birna segir að miklar skemmdir hafi orðið á parketinu og það hafi verið rifið upp og þurrkað. Að auki voru stórir, háværir blásarar í stofunni í fleiri daga til að þurrka gólfið og svo þurfti að setja nýja ofna í stofuna og leggja parketið.

„Þetta var svakalegt umstang. Við þurftum að tæma alla skápa og færa dót til og frá. Það er ekki gaman að lenda í þessu en sem betur fer var allt tilbúið tveimur dögum fyrir löngu planaða afmælisveislu í húsinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×