„Við komum flestir ferlega langt að,“ segir Haukur Snær um hjólreiðahópinn, sem ferðast þó í sitt hvoru lagi í vinnuna. Hann býr í Norðlingaholti og hjólar tíu kílómetra hvora leið. Svavar býr í miðbæ Hafnarfjarðar, Andrés Júlíus í Kársnesi í Kópavogi og Ólafur í Kórahverfinu en áður hjólaði hann frá Völlunum í Hafnarfirði.
„Við höfum farið síðustu sumur í hjólreiðaferðir, til dæmis í Hvalfjörð og á Þingvelli. Við erum tveir á svipuðum aldri, ég og Ólafur sem erum rúmlega þrítugir. Svo eru þarna tveir karlar, rúmlega fimmtugir, og við drífum þá áfram,“ segir Haukur Snær í léttum dúr.
Síðasta sumar fóru þeir í sautján daga hjólreiðaferð um Evrópu þar sem svalandi mjöður var drukkinn á helstu áningarstöðunum. Með í för var Ágúst, bróðir Hauks.
Saman hjóluðu þeir í gegnum sex lönd á 1.500 kílómetra leið sinni frá Berlín til Mílanó.
„Það var mikið drukkið af bjór. Við hjóluðum í Þýskalandi og Tékklandi, sem eru mikil bjórlönd, og fórum líka í gegnum Liechtenstein, Sviss og Austurríki og enduðum svo á Ítalíu. Þetta var mjög gaman.“

Hann hjólar í gegnum Elliðaárdal og Fossvog í Kringlu 1 þar sem Umboðsmaður skuldara er til húsa. Aðeins einu sinni á þessum fjórum árum hefur hann lent í óhappi, eða þegar hann lenti í árekstri við annað hjól. „Ég endaði uppi á spítala en sem betur fer var ekkert brotið,“ segir hjólreiðagarpurinn og mælir eindregið með þessum ferðamáta.
Sextán hringvegir á fjórum árum
Haukur Snær hefur skráð kílómetrafjöldann sem hann hefur hjólað samviskusamlega niður. Fyrst notaði hann til þess mæli á hjólinu en undanfarið hefur hann notað smáforritið Runkeeper sem skráir kílómetrafjöldann. Samanlagt jafngildir þetta um sextán og hálfum hringvegi en hringvegurinn sjálfur er 1.322 kílómetra langur.
Heildarfjöldi í km
Ár Km
2010 3.139,0
2011 6.173,8
2012 5.894,7
2013 6.756,7
Samtals km 21.964,1