Tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fundu nýverið um 27 þúsund steratöflur í farangri konu sem kom til landsins frá Póllandi.
Grunur vaknaði um að hún hefði ólögleg efni í farteski sínu og við leit fundust fyrrnefnd efni í kassa sem pakkað var í jólapappír. Töflurnar innihéldu nokkrar gerðir af sterum.
Konan, sem er erlendur ríkisborgari um þrítugt, var handtekin og yfirheyrð hjá lögreglunni á Suðurnesjum, sem fer með rannsókn málsins. Hún hefur nú verið látin laus.
Í frétt á vef Tollstjóra segir að tollverðir hafi í vaxandi mæli, tvö síðastliðin ár, stöðvað sendingar sem innihalda tól og tæki sem talin séu ætluðu til ólöglegrar lyfjaframleiðslu. Þar á meðal séu áberandi tómir lyfjabelgir, tóm glerglös og ál- og gúmmíhettur. Einnig hafi fundist efni og umbúðir, sem líklegt sé að nota eigi í framleiðslu og/eða pökkun ólöglegra efna.
Samkvæmt upplýsingum á vef Tollstjóra var árið 2012 lagt hald á hátt í tíu kíló af steradufti, sem hefði dugað til framleiðslu á fleiri hundruð þúsund steratöflum og þykir það renna enn frekari stoðum undir þann grun að hér á landi hafi fullvinnsla steraefna í söluform aukist.
Tekin með 27 þúsund steratöflur í jólapappír
Þorgils Jónsson skrifar
