Innlent

Reykvíkingar skila þriðjungi minna af sorpi en fyrir áratug

Þorgils Jónsson skrifar
Ákveðin kaflaskipti urðu í sorphirðu í Reykjavík í fyrra þar sem bláum sorptunnum, sem ætlaðar eru undir pappír, fjölgaði verulega. Á sama tíma fækkaði hinum hefðbundnu gráu tunnum nokkuð, en heildarmagn heimilissorps hefur dregist saman um þriðjung á áratug samkvæmt tölum frá Reykjavíkurborg.

Eygerður Margrétardóttir, deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg, segir í samtali við Fréttablaðið að Reykvíkingar hafi, eins og sést á tölfræðinni, tekið aukinni sorpflokkun fagnandi.

Heildarmagn heimilissorps í fyrra var rúm 19.000 tonn, samanborið við rúm 30.000 tonn fyrir áratug, og á þeim fjórum árum sem Bláa tunnan hefur verið í boði hefur magnið rúmlega fjórfaldast. 11.200 Bláar tunnur voru í umferð í fyrra, en þó íbúum sé gert að skila pappír í endurvinnslu er þeim frjálst að semja við einkaaðila um flokkunartunnur eða fara sjálf með pappírinn á endurvinnslu eða grenndarstöðvar.

„Það er mikill hugur í íbúum Reykjavíkur að flokka sorp,“ segir Eygerður og bætir því við að fjölmargar fyrirspurnir berist frá íbúum sem eru tilbúnir að flokka enn frekar.

„Auðvitað er alltaf einhver hópur sem er síður tilbúinn, en á heildina litið höfum við fundið mikinn meðbyr með notkun bláu tunnunnar og frekari flokkun.“

Eygerður segir að lesa megi ákveðinn vilja og metnað í því efni sem skilað er í tunnur og á grenndarstöðvar. Þar fari afar lítið af öðrum úrgangi með. Auk þess er sjaldgæft að þurft hafi að skilja eftir gráar tunnur með áberandi miklu af pappír í trássi við reglur.

„Þannig að fólk er greinilega að vanda sig mikið, og þrátt fyrir að fjölgað hafi mikið í hópi þeirra sem flokka, hafa gæðin ekki minnkað. Það er jákvæð þróun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×