Fótbolti

Of fáir tóku frumkvæði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson var ánægður með ferðina til Abú Dabí.
Heimir Hallgrímsson var ánægður með ferðina til Abú Dabí. fréttablaðið/daníel
Ísland laut í lægra haldi fyrir Svíþjóð í vináttulandsleik sem fór fram í Abú Dabí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í gær. Robin Quaison og varamaðurinn Guillermo Molins skoruðu mörk Svía en besta færi Íslands fékk varamaðurinn Guðmundur Þórarinsson er hann skaut í stöng í síðari hálfleik.

„Þeir voru sterkari en við í þessum leik,“ sagði Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, við Fréttablaðið eftir leikinn í gær.

„Þeir voru búnir að vera lengur hér – alls tíu daga og voru búnir að spila einn leik á undan þar að auki. Við hefðum getað gert betur en leikmenn okkar voru ekki með allt á hreinu sem er eðlilegt miðað við stuttan undirbúning.“

Íslendingar spiluðu vel í upphafi síðari hálfleiks en eftir það fór að draga af leikmönnum. Svíar gengu á lagið og skoruðu síðara mark sitt í leiknum.

Heimir sagði að skilaboðin eftir fyrri hálfleik hefðu verið einföld. „Við létum þá líta betur út en þörf var á – bökkuðum og gáfum þeim of mikinn tíma með boltann. Það voru of fáir sem tóku frumkvæði. Það er í raun enginn getumunur á þessum leikmönnum sem spiluðu í leiknum en við leyfðum þeim að vera of góðir í fyrri hálfleik. Skilaboðin voru því að vera aðeins hugrakkari og fara aðeins á þá.“

Heimir segir einnig eðlilegt að erfitt sé að halda einbeitingu og skipulagi þegar mörgum leikmönnum er skipt inn á líkt og raunin var í síðari hálfleik.

„En tilgangurinn var fyrst og fremst að skoða leikmenn og gefa þeim tækifæri. Ég held að svona leikir séu mikilvægir og þessi ferð svaraði ákveðnum spurningum. Það er verst að geta ekki verið hér lengur og unnið meira með leikmönnunum. Maður sá að það voru allir tilbúnir að hlaupa og berjast og það var flott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×