Innlent

Umhverfistöffurum kennt um 77% hækkun í Eyjum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að herferð umhverfisráðherra gegn sorpbrennslum hafi leitt til 77% hækkunar sorpeyðingargjalda fyrir heimili í Vestmannaeyjum. Þetta kemur fram í grein bæjarstjórans í Eyjafréttum undir fyrirsögninni „Umhverfistöffaramennska".

Bæjarstjórinn tekur fram að okkur beri að umgangast umhverfi okkar af ábyrgð og virðingu en hluti af þeirri ábyrgð sé að fara ekki í einhvern vitleysisgang. „Það er hættulegt samfélaginu ef umhverfissjónarmið eru ekki virt. Á því leikur ekki vafi. Á sama hátt er líka hættulegt umhverfinu þegar umræðan verður öfgakennd og rasað er um ráð fram ýmist af vanþekkingu eða í pólitískum leik,“ segir Elliði.

„Ruglið reið ekki við einteyming,“ segir hann síðan um umræðuna um sorporkustöðina í Eyjum á vordögum 2011. „Umræða um díoxínmengun náði nýjum hæðum á vordögum og mátti nema móðursýkina og vitleysisganginn á Richterskala þegar verst lét,“ segir bæjarstjórinn.

Nauðsynlegt hafi reynst að halda borgarafund í Eyjum „..þar sem landlæknir sagði til að mynda að erfitt væri að sýna fram á eiturefnaáhrif díoxín á menn og fátt myndi benda til þess að slíku væri fyrir að fara í Vestmannaeyjum“. Ekkert hafi verið hlustað á sjónarmið Eyjamanna sem bentu á að heildarumhverfisáhrifin væru alvarlegri af því að flytja sorpið til förgunar annað og brenna díselolíu til orkuöflunar í Eyjum í staðinn.

„Það skipti ekki máli fyrir þá sem fóru með valdið. Bent var á hversu mikill árangur hefði náðst í að draga úr útblæstri og að stöðin væri orðin langtum betri en hún var þegar hún var ný. Það skipti umhverfistöffarana ekki máli,“ segir Elliði.

„Nú er skaðinn skeður. Heimilin í Eyjum geta því þakkað fyrrum umhverfisráðherra kostnaðaraukningu af sorpeyðingargjöldum upp á 77%. Öllu sorpi í Eyjum er nú komið í ferþegaferjuna og því síðan trukkað um hundruð kílómetra til förgunar annarstaðar. Í staðinn brennum við aukinni díselolíu. Eitt af stóru verkefnum næsta kjörtímabils verður að finna hagkvæmari leiðir í sorpmálum íbúa. Leiða má líkum að því að sérstaklega verði horft til þess að hefja á ný sorpbrennslu til orkuöflunar,“ segir bæjarstjórinn.

Hann skilgreinir að lokum það sem hann kallar „umhverfistöffaramennsku“: „Að ráðast gegn almennri skynsemi í nafni umhverfisöfga og eftir láta öðrum að greiða kostnaðinn eða færa fórnirnar. Dæmi: ofstækið gegn sorpbrennslum, herferð gegn umferð á hálendinu, stríð gegn nýtingu vatnsafls og lengi má áfram telja. Sjá stefnu VG til nánari glöggvunar á umhverfistöffaramennsku.“


Tengdar fréttir

Segir ruslmál á Íslandi í tómu tjóni

Reglur sem neyða Skaftárhrepp til að loka sorpbrennslunni á Kirkjubæjarklaustri eru fáránlegar, segir sveitarstjórinn, og telur mun verra fyrir umhverfið að urða sorpið. Hreppurinn stendur frammi fyrr því að hafa ekki efni á að kynda skólann og sundlaugina.

Gefast upp á sorpbrennslu á Klaustri

Sveitarstjórn Skaftárhrepps segir of dýrt að taka aftur upp brennslu sorps til að kynda sundlaug og grunnskóla er verði því hituð með rafmagni. Sveitarstjóri segir sorpmál í landinu "í algeru rugli“. Sárt sé að að loka brennslunni og aka rusli burt.

Grænt ljós á búfjárrækt í Skutulsfirði

Beitartilraun í nágrenni við sorpbrennslustöðina Funa í Skutulsfirði sýnir að svæðið hentar aftur til búfjárhalds. Matvælastofnun ætlar að aflétta banni á nýtingu fóðurs. Bóndinn í Efri-Engidal segir það litlu breyta og leitar réttar síns.

Engin heilsufarsógn staðfest í mælingum

Fyrstu niðurstöður heilsufarsrannsóknar vegna díoxínmengunar frá sorpbrennslum sýna að starfsmenn Funa og íbúar á Ísafirði þurfa ekki að óttast heilsufarsleg áhrif vegna mengunarinnar. Þetta er mat sóttvarnalæknis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×