Innlent

Gefast upp á sorpbrennslu á Klaustri

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hreinsibúnaður var ófullkominn og magn dioxíns sem barst frá sorpbrennslunni var því of mikið. Þáverandi umhverfisráðherra ræsti ofninn á árinu 2003.
Hreinsibúnaður var ófullkominn og magn dioxíns sem barst frá sorpbrennslunni var því of mikið. Þáverandi umhverfisráðherra ræsti ofninn á árinu 2003. Mynd / Vilhelm

Sveitarstjórn Skaftárhrepps segir of dýrt að taka aftur upp brennslu sorps til að kynda sundlaug og grunnskóla er verði því hituð með rafmagni. Sveitarstjóri segir sorpmál í landinu „í algeru rugli“. Sárt sé að að loka brennslunni og aka rusli burt.

„Sorpmál almennt á Íslandi eru í tómu rugli,“ segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps þar sem gefist hefur verið endanlega upp á rekstri sorpbrennslu.

Sveitarstjórnin í Skaftárhreppi ákvað í fyrradag að ekkert verði af því að kaupa nýja sorpbrennslu í stað þeirrar sem sveitarfélaginu var gert að loka á Kirkjubæjarklaustri fyrir nákvæmlega hálfu ári. Var það gert vegna of mikillar dioxínmengunar frá brennsluofninunm sem hitaði íþróttahús og sundlaug heimamanna. Laugin var lokuð í sparnaðarskyni í vetur vegna þessa.

„Ef við ætlum að uppfylla skilyrðin alveg í þaula þá erum við að tala um hundrað milljónir; fimmtíu milljónir fyrir ofn með hreinsunarbúnaði og aðrar fimmtíu milljónir í mælabúnað. Það er bara of stór biti fyrir okkur,“ segir Eygló.

Eygló Kristánsdóttir

Sveitarstjórnin ákvað því að kaupa varmadælu fyrir 15 milljónir króna. Sá búnaður á að lækka rafmagnsreikninginn fyrir sundlaugina og grunnskólann um helming frá því sem nú er og spara þessu 443 íbúa sveitarfélagi fimm til sex milljónir á ári. Varmadælan muni þannig borga sig upp á þremur árum.

Eygló segir að sorp hafi verið flokkað í Skaftárhreppi frá árinu 1998. „Við höfum talið okkur vera fremst á þessu sviði. Nú verður sorpið einfaldlega keyrt til Reykjavíkur og urðað þar,“ segir hún. „Umhverfisins vegna finnst okkur sárt að loka brennslunni og þurfa að keyra sorpið í burtu. Það er alveg nóg umferð um Suðurland þó við förum ekki að bæta við flutningabílum.“

Að sögn Eyglóar gerir núverandi regluverk meðhöndlun sorps óvinnandi. Ekki sé bjartara framundan. „Árið 2025 á ekki að urða neitt sorp og það má ekki fara í brennslu. Hvað ætlum við að gera þá? Þetta er bara orðin vitleysa,“ segir sveitarstjórinn í Skaftáhreppi vonsvikin með lyktir sorpbrennslumálsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×