Innlent

Fátækrahverfin í Reykjavík: „Látið fólk vita af þessu“

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Í Funahöfða 17a hefur ólögleg búseta verið í um áratug. Um 40 manns búa þar núna en byggingin er skráð sem iðnaðarhúsnæði samkvæmt Fasteignaskrá. Á árum áður voru skrifstofur á tveimur efstu hæðum hússins en þeim hefur nú verið breytt í herbergjaleigu.

Í næsta þætti Bresta verður skyggnst bakvið tjöldin í Funahöfða og öðrum byggingum í Kópavogi og Hafnarfirði þar sem stórir hópar fólks búa í atvinnu- og iðnaðarhúsnæðum.

Leigjendur í Funahöfða 17a samþykktu að ræða við okkur ásamt því að sýna okkur aðbúnað. Þeir sem búið hafa í Funahöfða 17a lengi ítreka að margt hafi verið gert til að bæta brunavarnir og umgengni. Engu að síður er margt sem má bæta í þessum efnum.

„Þetta er ógeðslegur staður,“ segir einn. Annar biður um umfjöllun um aðbúnað í Funahöfða 17a: „Fólk þarf að sjá þetta.“

Þau kvarta síðan undan framkomu leigusala. Þegar þurrkara var stolið eina nóttina ákvað leigusalinn að hækka leiguna hjá öllum um 10 þúsund krónur.

Þegar ungt par ætlaði að sýna okkur herbergið sitt var bankað á hurðina. Þar var húsvörðurinn á ferð. Hann skipaði okkur að fara og sagði leigjendurna ekki mega tjá sig.

„Ég vil eiginlega ekki missa íbúðina mína,“ sagði leigjandinn þá og þar með lauk heimsókninni.

Við vildum fá útskýringar á því af hverju leigjendurnir máttu ekki ræða við okkur. Húsvörðurinn sagði eigandann verða að gefa leyfi fyrir slíku.

„Ekki ógna Stefáni Kjærnested,“ sagði húsvörðurinn að lokum og vísaði í framkvæmdastjóri Atlants Holding ehf. Félagið á stórar eignir í Funahöfða 17a og 19 og við Smiðjuveg í Kópavogi. Í þessum byggingum, sem eru með tölu skráð sem iðnaðarhúsnæði, býr fólk.

Í 6. þætti Bresta verður rýnt í þessi mál. Eignir Stefáns Kjærnested verða skoðaðar en einnig önnur dæmi þar sem einstaklingar búa við slæman kost í ólöglegu húsnæði.

Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri Slökkviliðsins á Höfuðborgarsvæði, hefur skoðað þessi mál síðustu tíu ár eða svo. „Þetta er hin hliðin á samfélaginu,“ segir Bjarni.

Brestir eru á dagskrá Stöðvar 2 mánudaginn 24. nóvember, klukkan 20:25.


Tengdar fréttir

Fréttaskýringaþáttur í anda Vice

Brestir er nýr hágæða fréttaskýringarþáttur frá fréttastofu Stöðvar 2 undir stjórn Lóu Pindar og fréttamanna fréttastofunnar.

Talandi tæki ógna stöðu íslenskunnar

"Vandamálið er þá að ef fyrirtæki á Íslandi vill nýta sér talgreiningu þá getur fyrirtækið ekki gert það þar sem Google á það,“ segir Hrafn Loftsson, dósent í tölvunarfræði.

Ung vændiskona segir sögu sína í Brestum

Vændisheimurinn er hrottalegur. Ein stærsta tekjulind skipulagðrar glæpastarfsemi og svartur blettur á samfélagi mannanna. En eins og svo oft eru tvær hliðar á málinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.