Innlent

Lögreglan neitar að hafa dreift flökkusögu á Facebook

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Kynningarfulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fullyrðir að umrætt útkall sé raunverulegt.
Kynningarfulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fullyrðir að umrætt útkall sé raunverulegt. mynd/anton
Fjölmargir hafa bent á líkindi með sögu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu setti inn á Facebook-síðu sína í dag og gamalli flökkusögu sem gengið hefur manna á milli í áraraðir.

Umrædd Facebook-síða lögreglunnar hefur vakið athygli fyrir að vera á köflum lífleg og skemmtileg. Í dag setti lögreglan inn sögu af útkalli þar sem nakinn maður er sagður hafa verið klóraður af kettlingi í kynfærin þegar hann vann að viðgerðum á uppþvottavél:

„Okkar fólk fór með hraði á vettvang en þegar þangað kom lá hinn slasaði kviknakinn á gólfinu fyrir framan uppþvottavélina og reyndist vera með stærðar kúlu á hausnum. Eftir að hafa hlúð að þeim slasaða og aðstoðað hann í að finna föt kom í ljós að hinn lúpulegi eiginmaður hafði verið í sturtu þegar bráðavandamál kom upp í uppþvottavélinni, en hann brást svo skjótt við og vippaði sér beint úr sturtunni í lagfæringarnar. Þar tók ekki betra við en að þar sem hann sat á hækjum sér sá kettlingur þeirra hjóna sér leik á borði og slæmdi klónum í hinn framtakssama eiginmann, á versta stað, sem brá svo mikið að hann rak höfuðið upp í borðplötuna og steinrotaðist.“

Sögu lögreglunnar svipar til flökkusögunnar.mynd/snopes
Í athugasemdakerfinu tjá sig nokkuð margir um söguna og nokkrir segja hana ósanna. Um gamla flökkusögu sé að ræða en það þrætir lögreglan fyrir.

Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, fullyrðir að umrætt útkall sé raunverulegt. Málið hafi komið upp fyrir nokkrum árum. „Það er af og frá að við finnum til gögn í þessu máli. Hins vegar þekki ég lögreglumanninn sem fór í þetta útkall og ég hef enga ástæðu til að rengja hans frásögn,“ segir Gunnar.

Umrædd flökkusaga er til í mörgum útgáfum og er sú elsta frá árinu 1964. Vefsíðan Snopes gerir henni góð skil hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×