Innlent

Klukkutími með konungi Svía

Samúel Karl Ólason skrifar
Guðrún tekur við verðlaununum af Karli Gústafi, Svíakonungi.
Guðrún tekur við verðlaununum af Karli Gústafi, Svíakonungi. Mynd/Aðsend
„Ég lít á þetta sem viðurkenningu fyrir mín störf og líka fyrir landfræðirannsóknir og rannsóknir samstarfsaðila minna, doktor og meistaranema og Háskóla Íslands,“ segir Guðrún Gísladóttir, sem í gær fékk Wahlberg gullverðlaun, sænska mann- og landfræðifélagsins.

Guðrún er prófessor í landfræði við Líf og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Verðlaunin hlaut hú fyrir vísindaframlag sitt á sviði landfræðin. Guðrún tók við viðurkenningunni af Karl Gústaf konungi Svía við hátíðlega athöfn í sænsku konungshöllinni í gær. Karl Gústaf er verndari verðlaunanna.

„Athöfnin tók um klukkutíma og konungurinn var þarna með okkur og spjallaði við okkur. Það var afskaplega ánægjulegt,“ segir Guðrún.

„Þetta vekur athygli á rannsóknum í landfræði og rannsóknum sem gerðar eru á Íslandi. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir minn rannsóknarhóp sem og Háskóla Íslands. Þetta sýnir einnig fram á að við séum í alþjóðlegu samstarfi og vinnum með mismunandi hópum.“

„Það er ánægjulegt þegar sést út fyrir landsteinana að það sem við erum að gera er einhvers virði,“ segir Guðrún.

Rannsóknir Guðrúnar hafa meðal annars snúið að náttúrulandfræði, gróður- og jarðvegseyðingu, sjálfbærri nýtingu lands og náttúruvá. Þá hefur Guðrún á síðustu árum meðal annars sinnt rannsóknum á bindingu kolefnis í jarðvegi en slíkar rannsóknir eru mjög þýðingarmiklar, ekki síst nú á tímum loftslagsbreytinga.

Eins dags ráðstefna verður haldin í Stokkhólmi í nóvember sem tileinkuð verði Guðrúnu og hennar rannsóknum. „Þá mun ég vera með erindi og fyrirlesurum verður sérstaklega boðið til að vera með erindi. Það verður mjög ánægjulegt og mun fara fram í Stokkhólmi,“ segir Guðrún.

Í tilkynningu segir að sænska mann- og landfræðifélagið, sem sé afar virt, hafi verið stofnað árið 1878 til að stuðla að rannsóknum í mannfræði og landfræði. Félagið úthlutar meðal annars styrkjum til vísindamanna, hefur út tímarit, skipuleggur málþing og ráðstefnur og fleira.

Í rökstuðningi stjórnar félagsins segir að Guðrún hljóti verðlaunin fyrir vísindaframlag til landfræði, ekki síst þekkingu hennar og rannsóknir á gróður- og jarðvegseyðingu og fyrir að stuðla að auknu samstarfi landfræðinga á alþjóðavettvangi.

Verðlaunin sem Guðrún hlaut eru kennd við Johan August Wahlberg, þekktan sænskan náttúruvísindamann og landkönnuð sem uppi var á fyrri hluta 19. aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×