Innlent

Starfsmaður óskast!

Jakob Bjarnar skrifar
Snorri Björn forstöðumaður þróunarsviðs segir merkilegt hversu margir búi yfir þekkingu eða reynslu af norrænu ráðherranefndinni, þegar að er gáð.
Snorri Björn forstöðumaður þróunarsviðs segir merkilegt hversu margir búi yfir þekkingu eða reynslu af norrænu ráðherranefndinni, þegar að er gáð.
Byggðastofnun óskar eftir sérfræðingi til starfa og auglýsir eftir slíkum á starfatorgi. Meginverkefni hans verður að fylgja eftir verkefnum sem sett hafa verið af stað samkvæmt sóknaráætlunum landshluta og vinna að framgangi verkefna samkvæmt formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, eins og það er orðað í auglýsingunni. Í hæfniskröfum er nefnt háskólanám, sjálfstæði í vinnubrögðum, tungumálakunnátta svo sem danska, norska eða sænska og lipurð í mannlegum samskiptum og svo er tekið fram: „Þekking og reynsla af norrænu samstarfi á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar.“

Þessar kröfur hljóta að þrengja hringinn verulega því varla eru það margir sem búa yfir slíkri reynslu? Snorri Björn Sigurðsson er forstöðumaður þróunarsviðs. Er ekki augljóst að búið er að eyrnamerkja einhverjum stöðuna? Nei, Snorri Björn segir svo ekki vera, það séu ótrúlega margir sem hafa komið að norrænu samstarfi, ef að er gáð. „Það er þannig að Ísland er núna með formennsku í norrænu ráðherranefndinni, erum með formennsku þar fimmta hvert ár. Við erum fyrst og fremst að horfa til þess sem heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þar er formennskuáætlunin kölluð norræna lífhagkerfið. Það verkefni mun standa í þrjú ár. Sá starfsmaður sem við erum að velta fyrir okkur þarf að geta komið að þessu verkefni með einhverjum hætti sem á eftir að skilgreina útí hörgul, sem fer eftir hæfileikum þess aðila sem við finnum. Fullt af Íslendingum sem hefur komið að þessu með einum eða öðrum hætti. Þetta ætti ekki að útiloka einn né neinn, mestu skiptir að viðkomandi geti tjáð sig á norrænu tungumáli. Þá er ég ekki að tala um íslensku.“

Snorri Björn segist spurður ekki hver launin eru, forstjórinn mun ganga frá launamálum þegar þar að kemur en umsóknarfrestur eru þrjár vikur eða til 7. apríl. En, eru margir búnir að sækja um?

„Neineineinei, þetta fór ekki inn fyrr en eftir vinnu í gærkvöldi. Kom mér reyndar á óvart hversu margir eru búnir að hringja. Átti ekki von á viðbrögðum svo fljótt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×