Erlent

Fjórir látnir eftir fellibyl í Filippseyjum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Að minnsta kosti fjórir eru látnir og nokkurra er saknað vegna fellibylsins Hagupit sem gengur nú yfir Filippseyjar. Hálf milljón manna hefur flúið heimkynni sín en fellibylurinn hefur valdið mikilli eyðileggingu.

Rúmlega sjö þúsund manns létust þegar fellibylurinn Haiyan gekk yfir Filippseyjar í nóvember í fyrra og voru yfirvöld því búin að fyrirskipað mikinn viðbúnað í ár.

Fellibylurinn gekk á land seint í gær og olli strax mikilli eyðileggingu. Þök fuku af húsum, tré rifnuðu upp með rótum og ár hafa flætt yfir bakka sína. Hann er þó vægari en talið var í fyrstu.

Aðeins dró úr krafti fellibylsins í gær en vindhraðinn mældist um 210 kílómetrar á klukkustund. Ástandið er hvað verst í austurhluta eyríkisins en þar hafa tugþúsundir íbúar í strandhéruðum flúið heimili sín og komið sér fyrir í neyðarskýlum. Í heild hafa rúmlega 600 þúsund manns þurft að flýja heimili sín vegna fellibylsins. Samgöngur liggja víðast hvar niðri og þá hefur rafmagn farið af stórum svæðum. Búist er við því að fellibylurinn nái til höfuðborgarinnar Manilla síðar í dag.


Tengdar fréttir

Íslendingar á Filippseyjum búa sig undir fellibylinn

Tugþúsundir manna hafa þurft að flýja heimili sín á Filippseyjum og í neyðarskýli en búist er við því að fellibylurinn Hagupit, sem einnig er kallaður Ruby, skelli á eyjunum á morgun. Mesti vindhraði í storminum hefur mælst 250 kílómetrar á klukkustund og ljóst er að hann gæti ollið gríðarlegu tjóni á landsvæði sem varð afar illa úti í stormi í fyrra, þar sem sjöþúsund manns létu lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×