Erlent

Lífstíðarfangelsi fyrir samkynhneigð í Úganda

Elimar Hauksson skrifar
Árið 2010 lak úganska blaðið Rolling Stone myndum af 100 samkynhneigðum einstaklingum í Úganda ásamt heimilisföngum þeirra. "Hengið þá," sagði einnig á forsíðu blaðsins.
Árið 2010 lak úganska blaðið Rolling Stone myndum af 100 samkynhneigðum einstaklingum í Úganda ásamt heimilisföngum þeirra. "Hengið þá," sagði einnig á forsíðu blaðsins. Mynd/Amnesty
Íslandsdeild Amnesty International stendur fyrir undirskriftasöfnun á netákallssíðu sinni þar sem skorað er á forseta Úganda, Yoweri Museveni að synja frumvarpi staðfestingar sem kveður á um lífstíðarfangelsi fyrir samkynhneigð í landinu.

Þann 20. desember síðastliðinn samþykkti úganska þingið frumvarp sem þyngir refsingar við samkynhneigð. Lífstíðarfangelsi getur legið við samkynhneigð samkvæmt frumvarpinu en úgönsk hegningarlög banna nú þegar „holdlegt samræði gegn lögmálum náttúrunnar“. Frumvarpið gengur lengra en núgildandi hegningarlög gera ráð fyrir með því að banna sérstaklega „grófa samkynhneigð“ með möguleika á lífstíðarfangelsi.



Samkvæmt frumvarpinu er einnig refsivert að „styðja við“ samkynhneigð eða ýta undir hana og í tilkynningu Amnesty International segir að í sumum kringumstæðum geti samkynhneigðir þurft að sæta þvinguðum alnæmisprófum. Frumvarpið er nú í höndum forseta landsins sem getur synjað því staðfestingar eða beiðst þess að þingið endurskoði einstök ákvæði. Amnesty telur að þrátt fyrir breytingar, þá yrði frumvarpið augljós aðför að réttindum hinsegin fólks í Úganda, sem þegar þurfi að þola fordæmingu af hálfu samfélagsins.

Hægt er hægt er að leggja málefninu lið og taka þátt í undirskriftasöfnun gegn frumvarpinu á síðu Amnesty.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×