Fótbolti

Van Gaal: Van Persie verður bara enn hungraðri á HM í sumar

óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie.
Robin van Persie. Vísir/Getty
Þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir Robin van Persie hjá Manchester United. Hann hefur bæði þurft að sætta sig við að missa mikið úr vegna meiðsla sem og að gengi liðsins hefur verið mjög dapurt.

„Það er augljóslega erfitt fyrir hann að upplifa fótboltann hjá Manchester United þessa dagana en það ætti bara að koma honum upp á tærnar fyrir HM. Robin verður bara enn hungraðri á HM í sumar," sagði Louis van Gaal, landsliðsþjálfari Hollendinga við Reuters-fréttstofuna.

Van Persie hefur skorað tíu mörk á tímabilinu en hefur ekki náð að fylgja eftir frábæru fyrsta tímabili sínu á Old Trafford. United er síðan í sjöunda sæti deildarinnar og hefur ekki verið neðar í tugi ára.

„Ég trúi því að Van Persie verði góður á HM því hann elskar að spila með landsliðinu. Hann var mjög góður í undankeppninni þar sem að hann spilaði stærra hlutverk en áður. Ég tel að hann haldi áfram á sömu braut í sumar," sagði Van Gaal.

Holland vann 9 af 10 leikjum sínum í undankeppni HM og er með Spáni, Ástralíu og Síle í riðli í úrslitakeppninni í Brasilíu næsta sumar.

Robin van Persie hefur skora 41 mark í 81 landsleik fyrir Holland og er markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi. Hann bætti met Patrick Kluivert  fyrr í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×