Fótbolti

Sonur Zidane valdi Frakkland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zinedine Zidane.
Zinedine Zidane. Vísir/Getty
Enzo Fernandez, átján ára sonur Zinedine Zidane, hefur valið að spila fremur með franska landsliðinu en því spænska.

Willy Sagnol, fyrrum landsliðsmaður Frakka, hélt þessu fram í frönskum fjölmiðlum en hann sér í dag um yngri landslið Frakklands.

Fernandez, sem notar eftirnafn móður sinnar, hefur verið á mála hjá Real Madrid síðan 2004 og er einnig gjaldgengur í spænska landsliðið.

„Leikmaðurinn valdi bláu treyjuna,“ sagði Sagnol í samtali við dagblaðið Le Parisien. „Hann gæti enn skipt um skoðun í framtíðinni en eins og sakir standa spilar hann fyrir Frakkland.“

Hann mun taka þátt í æfingum með U-19 liði Frakka í næstu viku en þó svo að hann leiki með yngri landsliðum Frakka verður hann ekki bundinn við val sitt fyrr en hann leikur með A-landsliðinu.

Zidane er einn besti knattspyrnumaður sögunnar og var lykilmaður í liði Frakka sem varð heimsmeistari árið 1998 og Evrópumeistari tveimur árum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×