Innlent

40 menntaskólanemar sitja fastir í Berlín

Jóhannes Stefánsson skrifar
40 manns úr þýskudeild skólans eru í flugstöðinni í Berlín.
40 manns úr þýskudeild skólans eru í flugstöðinni í Berlín. Vísir/Stefán
40 nemendur Menntaskólans í Reykjavík bíða nú í flugstöðinni í Berlín eftir flugi WOW Air sem hefur verið seinkað vegna bilunar.

Vélin átti að fara af stað um hádegi á staðartíma frá Berlín en hún fór aldrei í loftið frá Íslandi.

„Það kom upp bilun í vélinni þegar við vorum komin út á flugbrautina,“ segir Anna Guðjónsdóttir sem átti að fara til Berlínar með vélinni klukkan hálf sjö í morgun. Farþegunum var gert að bíða í vélinni í klukkustund á meðan athugun fór fram en henni var síðan snúið við og farþegarnir aftur fluttir inn í flugstöðina.

„Við fengum þúsund króna matarinneign í flugstöðinni og eigum von á nánari upplýsingum klukkan tvö,“ segir Anna.

Í Berlín bíða nemendur MR eftir upplýsingum um hvenær og hvernig þau komast heim. „Við mættum í flugstöðina klukkan tíu í morgun og áttum að fara í loftið á hádegi á staðartíma,“ segir Ingvar Þór Björnsson, nemandi við Menntaskólann í Reykjavík.

Um 40 manns eru í Berlín í skólaferð, en hópnum hefur verið úthlutaður tíu evru matarmiði sem gildir á veitingastöðum í flugstöðinni. „Við vitum ekki hvenær við förum heim eða hvernig. Seinast þegar ég vissi var verið að kanna möguleikann á því að fá leiguflug til að flytja okkur heim,“ segir Ingvar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×