Innlent

Hækkun á aldraða og öryrkja

Bjarki Ármannsson skrifar
Margir eldri borgarar treysta á neyðarhnappinn sem niðurgreiddur er að miklu leyti af Sjúkratryggingum Íslands.
Margir eldri borgarar treysta á neyðarhnappinn sem niðurgreiddur er að miklu leyti af Sjúkratryggingum Íslands. Vísir/Vilhelm
Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands vegna öryggiskallkerfa lækkar um 1.200 krónur á mánuði samkvæmt nýrri reglugerð sem tók gildi 1. janúar síðastliðinn.

Öryggismiðstöðin sendi viðskiptavinum sínum bréf í gær til að benda á þessa lækkun, en hún hefur í för með sér að þeir sem notast við neyðarhnapp vaktstöðvarinnar munu koma til með að borga 1.200 krónum meira á mánuði fyrir aðstoðina.

Í reglugerð 1155 frá því í fyrra segir að Sjúkratryggingum Íslands beri að greiða Öryggismiðstöðinni 5.500 krónur fyrir mánaðarlega þjónustu vegna notkunar neyðarhnappsins og viðbragða við boðum. Samkvæmt fyrri reglugerð var þessi upphæð 6.700 krónur.

Ómar Örn Jónsson, markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar, segir að aldraðir og öryrkjar nýti sér fyrst og fremst niðurgreiðslu vegna neyðarhnappsins.

„Það er ekki spurning að þetta er hækkun á aldraða og öryrkja,“ segir Ómar. „Okkur finnst þetta afskaplega óheppilegt.“

Hækkunin kemur að sögn Ómars ekki í gegn fyrr en í júlí. Mánaðarleg greiðsla hnappþega nemur um 1.350 krónum á mánuði en sú upphæð mun nánast tvöfaldast við breytingarnar.

„Við höfum ekki hækkað verð frá því að menn muna,“ segir Ómar. „Þannig að þetta er langt frá því að vera skemmtileg aðgerð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×