Rúm sextíu ár eru síðan íbúar Óslóar færðu Reykvíkingum fyrsta grenitréð að gjöf.
„Við vorum bara að heyra af þessu“
Frægt er að kveikt var í Óslóartrénu í Búsáhaldabyltingunni í janúar 2009. Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, sagði það til háborinnar skammar að mótmælendur brenndu tréð. Hann fór því til Óslóar fyrir jólin 2012 og felldi tréð sem sent var til Reykjavíkur sjálfur.

Jón Gnarr fór aftur út fyrir síðustu jól til þess að fella tréð.
„Við vorum bara að heyra af þessu og þurfum tíma til að fara yfir málin,“ segir Sigurður Björn Blöndal, aðstoðarmaður borgarstjóra í samtali við Vísi.
„Við ætlum að heyra í frændum okkar og vinum í Noregi,“ sagði Björn.
Ósló hefur einnig gefið íbúum Rotterdam og London tré fyrir hver jól. Þeir stefna jafnframt á að hætta að senda tré til Rotterdam. Áfram verður þó sent tré til London. Talsmaður Óslóarborgar segir tréð sem sent er til London gegna mikilvægu hlutverki og að tréð sé tákn um vináttu Breta og Norðmanna. Allt verði gert til að halda í þá vináttu.
Hafa flutt tréð án endurgjalds
Tréð hefur hingað til verið flutt til Íslands eð flutningaskipi án endurgjalds. Nú vilji skipafélagið hins vegar fá greitt fyrir flutninginn.
Ólafur William Hand, markaðs- og upplýsingafulltrúi Eimskipafélags Íslands, fullyrti í samtali við RÚV að það sé ekki rétt. Eimskip hafi flutt tréð ókeypis í yfir sextíu ár. Reykjavíkurborg hafi borist reikningur fyrir flutningunum í fyrra, vegna misskilnings. Sá misskilningur hafi verið leiðréttur og reikningurinn afturkallaður. Ekki hafi verið farið fram á neina greiðslu.