Lífið

Færir fótboltamenn úr búningunum

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Rakel McMahon
Rakel McMahon MYND/Úr einkasafni
„Ég er að skoða fótbolta sem félagslega athöfn og vettvang til samskipta,“ segir Rakel McMahon myndlistarkona, en hún heldur einkasýningu í Stokkhólmi sem verður opnuð á morgun.

„Þetta er málverkasería þar sem leikurinn, leikmenn og áhorfendur verða að myndlíkingu fyrir mun víðara samhengi: kynímyndir, kynhneigð og staðalímyndir. Ég nýti ljósmyndir frá fótboltaleikjum og rýni í líkamstjáningu og samskipti leikmanna. Ég fjarlægi svo leikvöllinn, búningana og boltann. Þessi smávægilega breyting kúvendir upprunalegri ímynd leikmannsins sem breytir samtímis ímynd og hlutverki áhorfandans,“ útskýrir Rakel.

Hún hefur haldið fjölda sýninga hér á landi en þetta er hennar fyrsta einkasýning í útlöndum.

„Ég hef verið að vinna að þessu í um það bil ár. Það sem vakti áhuga minn voru samskipti og hegðun karlmanna fyrst og fremst í tengslum við fótbolta. Fótboltinn og menningin í kringum leikinn virðist vera vettvangur til þess að vekja upp og/eða leysa úr læðingi allan tilfinningaskalann,“ segir Rakel og segir að verkin beini sjónum að viðkvæmum hvötum og mannlegum tilfinningum.

Sýningin ber heitið „View of Motivation“ og mun standa yfir í Nau Gallery í Stokkhólmi til 22. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.