Sport

Af hverju vill engin Evrópuþjóð halda Ólympíuleikana lengur?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Bach er forseti IOC.
Thomas Bach er forseti IOC. Vísir/Getty
Áhugi Evrópuþjóða á því að halda Ólympíuleika virðist nú vera í sögulegu lágmarki og evrópska Ólympíunefndin hefur mikinn áhuga á því að rannsaka ástæður þess eftir að allar Evrópuþjóðirnar hættu við að vilja halda 2022-leikana.

Fjórar Evrópuþjóðir drógu nefnilega framboð sitt til baka löngu áður en Alþjóðaólympíunefndin ákvað hvar Vetrarólympíuleikarnir árið 2022 fara fram.

Karkóv í Póllandi, Lviv í Úkraínu, Stokkhólmur í Svíþjóð og Osló í Noregi voru allar búnar að setja saman myndarleg framboð en guggnuðu. Norðmenn voru síðastir til að hætta við framboðið.

Alþjóðaólympíunefndin velur nú á milli Almaty í Kasakstan og Peking í Kína en þessar tvær borgir eru þær einu sem vilja halda Vetrarólympíuleikana árið 2022.

Rússar héldu Vetrarólympíuleikana í Sotsjí fyrr á þessu ári og árið 2018 fara þeir fram í Pyeongchang í Suður-Kóreu. Sumarólympíuleikarnir fara fram í Ríó í Brasilíu 2016 og svo í Tókýó í Japan fjórum árum síðar.

Evrópska Ólympíunefndin hefur nú sett saman sérstakan vinnuhóp til að komast að vandamálinu og leita að lausnum svo að Evrópuþjóðirnar sjái sér fært um að bjóða fram að nýju. Þetta er haft eftir Íranum Patrick Hickey í viðtali við tímaritið Insidethegames en Hickey er forseti evrópsku Ólympíunefndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×