Sport

Murray og Djokovic mætast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Murray tryggði sér sæti í átta-manna úrslitum í gær.
Murray tryggði sér sæti í átta-manna úrslitum í gær. Vísir/Getty
Skotinn Andy Murray vann öruggan sigur á Frakkanum Jo-Wilfried Tsonga í þremur settum (7-5, 7-5, 6-4) á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis í gær.

Murray hefur gengið vel gegn Tsonga í gegnum tíðina, en Skotinn hefur unnið tíu af tólf viðureignum þeirra. Sigurinn í gær var jafnframt fyrsti sigur Murrays á leikmanni í efstu tíu sætum heimslistans frá því á Wimbledon-mótinu 2013 sem Murray vann.

Með sigrinum tryggði Murray sér sæti í átta-manna úrslitum þar sem hann mætir Serbanum Novak Djokovic, sem vann Wimbledon fyrr á árinu. Djokovic komst í átta-manna úrslitin með því að leggja Þjóðverjann Philipp Kohlschreiber í þremur settum (6-1, 7-5, 6-4).

Murray og Djokovic hafa marga hildina háð á tennisvellinum, en þeir mættust m.a. í úrslitum Opna bandaríska fyrir tveimur árum þar sem Murray hafði betur (7-6, 7-5, 2-6, 3-6, 6-2) í viðureign sem stóð yfir í fjóra klukkutíma og 16 mínútur.

Alls hafa Murray og Djokovic mæst 20 sinnum á tennisvellinum. Serbinn hefur unnið tólf viðureignir, en Skotinn átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×