Íslenski boltinn

Albert Brynjar vill fara í Fylki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Albert Brynar Ingason er á sinni þriðju leiktíð með FH.
Albert Brynar Ingason er á sinni þriðju leiktíð með FH. vísir/stefán
Albert Brynjar Ingason, framherji FH, er á leið í Fylki, en leikmaðurinn vill komast aftur í uppeldisfélag sitt og í Lautinni eru menn meira en tilbúnir til að taka á móti honum.

Albert staðfesti í viðtali við fótbolti.net í vikunni að hann væri á förum frá FH þar sem hann væri „hreinlega spenntur fyrir nýjum áskorunum“. Hann hefur lítið komið við sögu hjá Hafnafjarðarliðinu á tímabilinu.

Framherjinn gekk í raðir FH frá Fylki í febrúar 2012 og gerði tveggja ára samning. Hann framlengdi samning sinn um tvö ár í fyrra, en þeim samningi var ekki skilað inn á réttum tíma og er hann því samningslaus samkvæmt bókum KSÍ.

„KSÍ segir að hann sé samninglaus samkvæmt reglunum. Þannig liggur málið, en það er verið að reyna að finna einhverja lendingu á þessu,“ segir Ásgeir Ásgeirsson, formaður knattspyrnudeildar Fylkis, í samtali við Vísi.

Erfiðlega hefur gengið fyrir liðin að ræða saman í vikunni þar sem FH-ingar hafa verið á ferðalagi í Hvíta-Rússlandi þar sem þeir spiluðu í Evrópudeildinni í gær.

„Ég kem til með að hitta JónRúnar [Halldórsson, formann knd. FH] á morgun,“ segir Ásgeir en Fylkismenn hafa sjálfir lent í svipuðu máli þar sem leikmaður gat farið án greiðslu þegar haldið var að hann væri með gildan samning.

„Þetta er auðvitað vont mál fyrir hvern þann sem lendir í þessu. Þetta gerðist líka hjá Fylki með Ian Jeffs. Þeir sem voru að stjórna klúbbnum þá sendu ekki inn samninginn hans og því gat hann labbað út eins og Jeffs gerði þegar hann fór í Val. Þetta eru sambærileg mál, en hvort þetta sé gott fyrir fótboltann veit ég ekki,“ segir Ásgeir.

Sjálfur vill Albert Brynjar komast heim og það er lítið sem FH getur gert í því. Fylkismenn ætla þó að ræða við FH-inga eins og fyrr segir.

„Málið er, að hann vill koma til okkar. FH-ingar hafa klárlega klikkað eitthvað í sínum málum og það liggur auðvitað vel við okkur. Maður vill samt alltaf komast að einhverri góðri niðurstöðu. Það er skemmtilegra þegar allir eru vinir.“

„Það er samt leiðinlegt þegar félag sem hefur staðið við allt sitt gagnvart leikmanninum situr í súpunni en við Fylkismenn þekkjum þetta líka eins og ég segi. Samkvæmt reglum þurfum við ekkert að greiða fyrir hann nema félagaskiptagjaldið,“ segir Ásgeir Ásgeirsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×