Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - Þór 3-2 | Fyrsti sigur Blika

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vísir/Valli
Þór hafði ekki unnið Breiðablik á Kópavogsvelli í efstu deild síðan í maí 1992 og það varð engin breyting þar á í kvöld.

Mörk frá nöfnunum Elfari Árna Aðalsteinssyni og Frey Helgasyni og Árna Vilhjálmssyni tryggðu Kópavogsliðinu sinn fyrsta sigur í deildinni í sumar, en þetta var jafnframt fyrsti sigur liðsins undir stjórn Guðmundar Benediktssonar sem tók við stjórnartaumunum af Ólafi H. Kristjánssyni í byrjun júní-mánaðar.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og fyrir utan mörkin þrjú var hann heldur tíðindalítill. Báðum liðum gekk illa að ná einhverri stjórn á leiknum og misheppnaðar sendingar voru mýmargar. Sömuleiðis aukaspyrnunnar en alls dæmdi Vilhjálmur Alvar Þórarinsson um 40 slíkar í leiknum.

Blikar náðu forystunni á 23. mínútu þegar Elfar Árni kom boltanum yfir línuna eftir sendingu Árna. Nokkru áður höfðu Þórsarar komist nálægt því að skora þegar Gunnleifur Gunnleifsson varði í tvígang frá nöfnunum Jóhanni Helga Hannessyni og Þórhallssyni.

Norðanmenn jöfnuðu leikinn á 37. mínútu þegar skot Sveins Elíasar Jónssonar, fyrirliða Þórs, fyrir utan vítateig fór í varnarmann Blika og í netið.

Heimamenn endurheimtu forystuna á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Elfar Freyr var fyrstur að átta sig og skallaði boltann í netið eftir að aukaspyrna Guðjóns Péturs Lýðssonar hafði smollið slá Þórsmarksins.

Markið virtist gefa Blikum aukna trú á verkefnið og þeir mættu sterkir til leiks í seinni hálfeiks. Á 53. mínútu jók Árni muninn í 3-1 með skalla eftir fyrirgjöf Andra Rafns Yeomans í kjölfar hornspyrnu.

Þórsarar virtust steinrunnir eftir markið og sóknaraðgerðir þeirra voru afar tilviljanakenndar og ómarkvissar.

Það var kannski til marks um úrræðaleysið að miðvörðurinn Orri Freyr Hjaltalín var færður í framlínuna um miðjan seinni hálfleikinn. Og til að gera langa sögu stutta bar það herbragð lítinn árangur, en helsta framlag Orra fólst í því að þruma boltanum í varnarmenn Blika við hvert tækifæri.

Fátt markvert gerðist þangað til í uppbótartíma þegar Þórður Birgisson minnkaði muninn fyrir gestina eftir hornspyrnu Shawns Nicklaw og skalla Jóhanns Helga.

Nær komust Þórsarar hins vegar ekki og Blikar fögnuðu langþráðum sigri sem kom liðinu upp úr fallsæti. Guðmundur og lærisveinar hans geta tekið ýmislegt jákvætt með sér í næstu leiki, þótt Blikar hafi oft spilað betri fótbolta en í kvöld.

Baráttan og viljinn voru hins vegar til staðar og það hefur væntanlega yljað stuðningsmönnum Blika að sjá sína menn loks á skotskónum, en Blikum hefur gengið bölvanlega upp við mörk andstæðinga sinna í sumar.

Þórsarar eru hins vegar komnir í botnsæti Pepsi-deildarinnar og eru nú fjórum stigum frá öruggu sæti. Liðið er búið að fá á sig 21 mark í tíu leikjum og það sjá allir að það er ekki líklegt til árangurs.

Einbeitingarleysið í öftustu línu, staðsetningar, færslurnar og hjálparvörnin eru einfaldlega ekki efstu deildarliði sæmandi. Móðir gæti ekki einu sinni elskað varnarleikinn hjá Þór.

Norðanmenn eru komnir ofan í ansi djúpa holu og það er vandséð hvernig þeir ætla að krafla sig upp úr henni. Þeir þurfa að finna lausnir og það ekki seinna en í dag. Annars fer illa.

Vísir/Valli
Guðmundur: Löngu kominn tími á fyrsta sigurinn

Breiðablik fagnaði sínum fyrsta sigri í sumar þegar liðið bar sigurorð af Þór á Kópavogsvelli með þremur mörkum gegn tveimur. Guðmundur Benediktsson, þjálfari Blika, sagði þungu fargi af sér létt.

"Að sjálfsögðu. Við erum ánægðir og það var löngu kominn tími á fyrsta sigurinn. En við þurfum að halda áfram, það vannst bara einn leikur og framundan eru eintómir úrslitaleikir.

"Við þurfum að halda áfram að leggja svona mikið í leikina og ég var virkilega ánægður með framlagið hjá liðinu í kvöld og við verðskulduðum þrjú stig," sagði Guðmundur, en hvað skilaði sigrinum í kvöld?

"Við gerum að sjálfsögðu þrjú mörk sem hjálpar mikið. Við höfum verið í smá vandræðum upp við markið og þess vegna er ég mjög ánægður með að hafa sett þrjú mörk.

"En við getum ennþá bætt okkur í ýmsum þáttum leiksins. Mér fannst algjör óþarfi, fyrir hjartað, að fá þetta annað mark á okkur undir restina því mér fannst við vera með leikinn," sagði Guðmundur sem sagði að sínir menn hefðu getað gengið frá leiknum fyrr.

"Það voru tækifæri til að fara og setja fjórða og jafnvel fimmta markið. Mér fannst við aðeins of ragir við það, kannski út af því að við vorum ekki búnir að vinna leik.

"Menn héldu aðeins aftur af sér og þorðu ekki alveg að keyra út, keyra út úr stöðum sem þarf stundum til að skora mörk. En ætla ekki að svekkja mig yfir því í kvöld - ég er bara gríðarlega ánægður með þessi þrjú stig," sagði Guðmundur að lokum.

Vísir/Valli
Páll Viðar: Kannski hefði ég átt að gera þetta fyrr

"Við fengum á okkur þrjú mörk í kvöld og þá er mjög erfitt að vinna leiki," sagði Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, eftir tapið gegn Breiðabliki í kvöld, en varnarleikur Þórsara var eins og svo oft áður í sumar í molum.

"Það er mjög sárt að sjá eftir stigum, leik eftir leik eftir leik þar sem við erum ekki með fulla einbeitingu inni í okkar vítateig. Leikurinn réðist á því, þeir voru grimmari í teignum eftir föst leikatriði en við.

"Það er eins og önnur lið hafi meiri vilja inni í teignum en við og taki meiri ábyrgð. En við vonum að við getum bætt úr því," sagði Páll notaði tvær síðustu skiptingar sínar ekki fyrr en á lokamínútunum.

"Ég gerði þetta til þess að reyna að jafna leikinn og við náðum inn einu marki. Við reyndum allt og færðum til leikmenn til að reyna að berja á þeim.

"Kannski hefði ég átt að gera þetta fyrr. Eftir á að hyggja hefði ég kannski ekki átt að gera þetta. Við töpuðum leiknum og þá er flest sem maður gerir umhugsunarefni.

"Til þess eru þjálfarar. Þeir taka ákvarðanir og standa og falla með þeim. Ef við horfum á það þannig, þá er ég að falla með þessari ákvörðun í dag.

"Ég stillti upp liðinu og skipti inná. En þetta er okkar saga, við erum að fá á okkur of mörg mörk. En ég segi samt að það eru batamerki á Þórsliðinu," sagði Páll að endingu.

Vísir/Valli
Vísir/Valli

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.