Lífið

,,Biðin endalausa er skelfileg"

Ellý Ármanns skrifar
,,Hún er mín aðalfyrirmynd. Baráttukona sem hefur ekkert látið stöðva sig." segir Elísabet um nöfnu sína og ömmu sem er 96 ára.
,,Hún er mín aðalfyrirmynd. Baráttukona sem hefur ekkert látið stöðva sig." segir Elísabet um nöfnu sína og ömmu sem er 96 ára.
,,Nú er komin upp sú staða sem ég hef óttast alla ævi. Æxli fannst í mínum líkama," skrifaði Elísabet Sóley Stefánsdóttir, 36 ára, í nafnlausum pistli sem hún birti á vefnum Innihald.is  fyrir þremur vikum þar sem hún ræddi þessa hræðilegu tilfinningu sem hún upplifði þegar henni var tjáð að hún væri með æxli í lærinu sem reyndist góðkynja.

Þessi sterka kona ákvað að stíga fram og segja frá þessari erfiðu reynslu og hvernig hún höndlaði þessar fréttir. Nú er hinsvegar komin upp ný staða hjá Elísabetu en nýverið fundust breytingar hjá henni í lunga og í dag bíður hún eftir að fara í sýnatöku. Þessi bið er löng en Elísabet er sterk og hún ætlar sér að ,,tækla" þetta verkefni eins og hún segir sjálf.

Breytingar fundust í lunga

,,Ég skrifaði þennan pistil fyrir akkúrat þremur vikum síðan. Þá nafnlaust þar sem ég var ekki tilbúin að segja frá. Sem betur fer var niðurstaðan sú að æxlið sem var á stærð við appelsínu sem ég er með í lærinu er góðkynja. En ekki hvarflaði að mér að þremur vikum síðar myndi ég vera í sömu stöðu aftur. Biðin endalausa er skelfileg. Núna fundust breytingar í lunga og ég er að bíða eftir því að komast í sýnatöku á föstudaginn. Hver dagur er eins og heil eilfíð," segir Elísabet.

Crossfit hennar annað heimili

,,Verst þykir mér að vera dottin út úr rútínu minni, að hafa ekki heilsu til þess að mæta í Crossfit Reykjavik og vera þar mínar 1-2 klukkustundir á dag. Ég sakna þess óskaplega og allra þeirra vina sem ég er búin að eignast þar. Ég vona að ég fái grænt ljós sem allra fyrst að fara aftur niður í Crossfit Reykjavíkur og fá öll brosin sem tóku þar á móti manni á hverjum degi," segir Elísabet sem æfir reglulega en hún starfar einnig sem dómari þegar kemur að lyftingum. Hún ætlar að halda áfram að mæta í Crossfit Reykjavík sem er hennar annað heimili.

,,Nú er einfaldlega ekkert annað en að hugsa jákvætt og vona það besta. Ferlið hefur tekið, að mér finnst marga mánuði, en í raun eru þetta bara tvær til þrjár vikur frá því ég fór til læknis og þar til ég var komin í sýnatöku, skrifaði hún í fyrrnefndum pistli.

Sá æxlið greinilega

,,Þegar ég lá á bekknum í tölvusneiðmyndatækinu var skjár fyrir framan mig, þar sem ég gat séð allt sem fram fór. Ég sá greinilega æxlið, svæðið var miklu ljósara. Allt í einu rann upp fyrir mér að þetta var ekkert einhver draumur sem ég myndi vakna upp frá. Heldur var þetta áþreifanlegt, þarna blasti æxlið við og fyllti út í mun stærra svæði en ég nokkurn tímann gerði mér grein fyrir."

Bjartsýn og jákvæð

Elísabet er jákvæð varðandi framhaldið. Reynslan er henni vissulega erfið, óvissan og biðin en hún trúir því að allt fari vel. Hún hefur ákveðið að sleppa takinu og treysta að allt fari vel.

,,Eins og ég hef sagt áður, þá er þetta eitt af þeim stóru verkefnum sem ég hef fengið í lífinu og já ég mun tækla þau með stæl, bros á vör og baráttu, enda ekki þekkt fyrir neitt annað," segir þessi sterka kona.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.