Erlent

48 prósent Breta myndu ganga úr ESB

vísir/afp
Fjörutíu og átta prósent Breta segjast myndu greiða atkvæði með því að ganga úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, samkvæmt nýrri könnun. Þrjátíu og sjö prósent segjast myndu greiða atkvæði með áframhaldandi veru Bretlands í ESB. 

David Cameron forsætisráðherra Bretlands hefur boðað þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2017 um áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu. Í nýrri könnun sem birtist í Observer, helgarútgáfu The Guardian, kemur fram að 48 prósent Breta segjast myndu greiða atkvæði með því að ganga úr Evrópusambandinu. Könnunin virðist veita vísbendingar um að þetta gæti snúist við ef Bretum tekst að semja við sambandið um breytingar á aðild landsins að því.

Tækist það myndu 42 prósent greiða atkvæði með áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu en 36 prósent myndu vilja hætta í sambandinu. Ekki virðist vera mikil trú á að Cameron takist að ná góðum samningi um breytingar við Evrópusambandið því aðeins 18 prósent Breta telja að það takist, samkvæmt könnun Observer.

David Cameron hefur lagst gegn skipun Jean-Claude Juncker í embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB þar sem talið er að Juncker muni gera það erfiðara fyrir Breta að semja um breytta aðild að sambandinu.  Juncker er sagður sambandsstjórnarsinni, eða federalisti,  sem er hlynntur enn frekari samvinnu ríkjanna 28 í Evrópusambandinu. Angela Merkel Þýskalandskanslari styður tilnefningu Junckers en vonir standa til að ágreiningur um tilnefningu hans verði leiddur til lykta á ríkjaráðstefnu í Brussel í þessari viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×