Innlent

Mannfræðingur segir merkilegt að rasistastytta hafi ekki verið fjarlægð fyrr

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Kristín og styttan umdeilda.
Kristín og styttan umdeilda.
„Ég velti stundum fyrir mér þessum litla vilja til að taka svona hluti burt,“ segir Kristín Loftsdóttir mannfræðingur en kaffihúsið Svarta kaffið hefur tekið niður styttu af þeldökkum þjóni sem lengi vel hefur verið eins konar einkennismerki kaffihússins.

Ákveðið var að taka styttuna niður eftir fjölda neikvæðra athugasemda um hana sem settar voru inn á Facebook-síðu kaffihússins í vikunni en hafa nú verið fjarlægðar. Uppstillingin hefur þó margoft áður verið gagnrýnd, meðal annars í aðsendum bréfum ferðafólks sem birst hafa í The Reykjavík Grapevine.

En hvað er það við styttur sem þessar sem gerir þær rasískar?

„Það má kannski spyrja á móti, hvað er það sem er ekki rasismi við þetta?,“ segir Kristín í samtali við Vísi. Ef við setjum hana í samhengi við ímyndir af svörtu fólki, sérstaklega tengdar Bandaríkjunum, þá er mjög erfitt að aðskilja svona styttur frá rasisma. Staðalmyndin sem hún endurspeglar er skopstæling og bandarískir fræðimenn hafa bent á að svona skopstælingar þóttu mikilvægar á tímum þegar svartir í Bandaríkjunum sóttust eftir almennum borgaralegum réttindum.“

Kristín segir lengi hafa verið tilhneigingu hér á landi til að aðskilja okkur frá sögu kynþáttafordóma.

„Ef við skoðum til dæmis námsbækur frá byrjun tuttugustu aldar og lokum þeirra nítjándu má sjá að Íslendingar þekktu vel og tóku þátt í að endurskapa mjög fordómafullar ímyndir.“

Kristín segir skopstælingar á þeldökku fólki í Bandaríkjunum hafa verið algengar á þeim tímum þegar það sóttist eftir almennum borgaralegum réttindum.mynd/wikipedia
„Negri“ í barnakrossgátu

Varðandi styttuna á Svarta kaffinu segir Kristín erlenda ferðamenn oft verða hissa vegna þess að búið sé að úthýsa ímyndum sem þessari úr þeirra almenningsrými.

„Það er áhugavert með Svarta kaffið að það eru þó nokkrir Íslendingar af afrískum uppruna sem hafa beðið um að þetta sé fjarlægt. Það er auðvitað jákvætt að það hafi verið gert núna en samt merkilegt að það hafi tekið svona langan tíma.“

Kristín segir mun á því þegar haldið er í hluti sem endurspeglun til þess að hjálpa fólki að muna eftir fordómum og þegar þeir eru hafðir uppi eins og saklausar minjar með ekkert sögulegt samhengi.

„Það er ýmislegt í okkar daglega rými sem mörgum virðist þykja allt í lagi. Við höfum dæmi úr námsbókum eins og umræða var um fyrir nokkrum mánuðum. Til dæmis var sonur minn að leysa krossgátu um daginn og eitt af lausnarorðunum var orðið negri, og þetta var í barnakrossgátu.

Ég velti stundum fyrir mér þessum litla vilja til að taka svona hluti burt og hvort það hangi saman að Íslendingum finnist Ísland svo sérstakt að þeir geti verið með hluti sem eru særandi og hatursfullir. Hér virðist vera einhver þörf fyrir að geta sagt að þetta sé allt öðruvísi og að útlendingar skilji þetta ekki.

Þetta rímar mjög vel við margt annað sem ég hef séð, eins og til dæmis umræðuna um endurútgáfu bókarinnar Tíu litlir negrastrákar. Jafnvel enn sterkar við það þegar Sigmund birti skopmynd um forsetakosningar í Bandaríkjunum þar sem Obama var stillt upp á móti Hillary Clinton. Teikningin rataði í erlenda fjölmiðla og var harðlega gagnrýnd þar. Þá var áhugavert að sjá marga Íslendinga segja: „Hvað eru útlendingar að segja okkur hvað við eigum að vera að gera?“.“


Tengdar fréttir

Svara hatri með ást

„Margt mis fagurt hefur verið sagt um okkur á samfélagsmiðlum og jafnvel í einkaskilaboðum.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.