Innlent

Öryggi barna á rafmagnsvespum áhyggjuefni

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Hjálmlaus ungmenni á rafmagnsvespu.
Hjálmlaus ungmenni á rafmagnsvespu. Vísir/HAG
Ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af öryggi barna sem aka rafmagnsvespum, segir kynningarstjóri Samgöngustofu. Hann vonast til að umferðarlögum verði breytt til að koma í veg fyrir alvarlegri slys, en fyrr í vikunni ók þrettán ára stúlka á sex ára gamlan dreng á slíku farartæki.

Á fimmtudaginn var rafmagnsvespu ekið á 6 ára dreng á gangbraut á Hagamel í Reykjavík. Drengurinn var á leið í skóla þegar slysið varð, en hann slasaðist nokkuð. Ökumaður vespunnar var þrettán ára stúlka. Með henni á vespunni var jafnaldra hennar. Stúlkurnar voru lemstraðar eftir slysið en hvorug þeirra var með hlífðarhjálm.

Einar Magnús Magnússon, kynningarstjóri Samgöngustofu, segir mörg dæmi um slík slys. Rafhjól séu ítrekað misnotuð og reglur hundsaðar. 

Þó rafdrifin hjól flokkist sem reiðhjól eru þau í flestum tilvikum hönnuð fyrir fullorðna og Samgöngustofa mælir ekki með að börn yngri en 13 ára aki þeim. Þá er óheimilt er að reiða farþega á hjólum sem þessum.

Notkun rafhjóla hefur aukist mjög á landinu síðustu ár en ekki eru til nákvæmar tölur yfir slys sem verða að völdum hjólanna, þó að fólki sé skylt að tilkynna slíkt til lögreglu. Skráningu slysa á borð við slysið á fimmtudaginn er því ábotavant. 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×