Innlent

Árni Páll svarar: Ólík sjónarmið uppi gagnvart Þjóðkirkjunni

Bjarki Ármannsson skrifar
Ummæli Árna Páls um Þjóðkirkjuna hafa vakið talsverða athygli.
Ummæli Árna Páls um Þjóðkirkjuna hafa vakið talsverða athygli. Vísir/Pjetur
Árni Páll Árnason, alþingismaður og formaður Samfylkingarinnar, segir ólík sjónarmið uppi innan flokksins gagnvart Þjóðkirkjunni. Hann telur sjálfur rétt að halda í núverandi fyrirkomulag og að hugmyndinni um trúarlíf eigi ekki að úthýsa úr skólakerfinu.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Árna Páls á Facebook-síðu hans í kvöld. Ummæli hans í þættinum Mín skoðun í gær hafa vakið talsverða athygli en þar sagðist hann vera mikill talsmaður Þjóðkirkjunnar og að hann væri hlynntur samfylgd ríkis og kirkju. Þetta vakti meðal annars gremju Ungra jafnaðarmanna sem skoruðu í kjölfarið á Samfylkinguna að samþykkja ályktun um aðskilnað ríkis og kirkju á næsta landsfundi.

„Það eru ólík sjónarmið innan Samfylkingarinnar gagnvart Þjóðkirkjunni,“ segir Árni Páll í yfirlýsingu sinni. „Blessunarlega ræð ég ekki öllu í Samfylkingunni og geri enga kröfu til þess. Stefna Samfylkingarinnar er málamiðlun sjónarmiða, því Samfylkingin er fjöldahreyfing sem vill skapa rúm fyrir ólík sjónarmið.“

Hann ítrekar að hann telji persónulega rétt að halda í núverandi Þjóðkirkjufyrirkomulag. Máli sínu til stuðnings segir hann meirihluta þjóðarinnar vilja ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá og að samfylgd þjóðar og kirkju sé hluti íslenskrar þjóðmenningar.

Hann nefnir einnig mörk sem sett hafa verið fyrir samskiptum kirkju og skóla undanfarin ár, meðal annars að frumkvæði fulltrúa Samfylkingarinnar í sveitarstjórnum, og segir þau af hinu góða.

„Menn geta svo rætt nákvæmlega hvar þau mörk eiga að liggja, en mér finnst eðlilegt að hugmyndinni um trúarlíf sé ekki úthýst úr skólakerfinu,“ segir Árni Páll. „Þar er ég ekki að vísa til einnar trúar umfram aðra heldur að virðing sé borin fyrir því vali fólks að trúa, hvaða trú sem það svo aðhyllist eða kýs að trúa ekki.“

Hann lætur að lokum stefnu Samfylkingarinnar um trúmál fylgja með færslu sinni og segist þykja hún býsna góð.

„Hún felur í sér fyrirheit um „grundvallarumræðu um samband ríkis og kirkju og þar á Samfylkingin að sem stjórnmálaflokkur að gegna virku hlutverki.“ Það finnst mér góð lína,“ segir hann að lokum.

Sjá má færslu Árna Páls í heild sinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×