Innlent

Vilja stórefla leigumarkaðinn

Bjarki Ármannsson skrifar
Gunnar Axel er núverandi formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.
Gunnar Axel er núverandi formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar. Mynd/Aðsend
„Við ætlum að stuðla að byggingu 500, minni og meðalstórra, hagkvæmra íbúða á næstu 4 árum með sérstaka áherslu á fjölbreytt búsetuform - ekki síst leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum,“ segir Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, en flokkurinn kynnti helstu áherslur sínar fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í kvöld.

Þá kynnti Samfylkingin einnig áherslur sínar varðandi barnafjölskyldur.

„Okkar framtíðarsýn er sú að þjónustugjöld leik- og grunnskóla lækki til samræmis við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þess vegna viljum við endurskoða og hækka tekjuviðmið sérstakra afsláttarkjara, auka systkinaafslátt umtalsvert og setja þak á þjónustugjöld hverrar barnafjölskyldu,“ segir Gunnar Axel. „Hafnarfjörður er náttúrulega fyrst og fremst fjölskyldubær.“

Gunnar Axel kynnti einnig hugmyndir varðandi uppbyggingu í miðbæ Hafnarfjarðar. Hann segir að nú sé kominn tími til þess að byggja upp verslun og þjónustu á Flensborgarhöfninni.

„Okkar framtíðarsýn er sú að stækka miðbæinn og hefja uppbyggingu á spennandi veitingahúsa- og verslunarsvæði við Flensborgarhöfnin,“ segir Gunnar Axel og heldur áfram: „Þar viljum við taka vel heppnað hafnarsvæði í miðborg Reykjavíkur til fyrirmyndar. Hafnarfjörður á að standa undir nafni og státa sig af af glæsilegu hafnarsvæði þar sem verslun, þjónusta og veitingahúsarekstur blómstrar.“

Gunnar Axel er formaður bæjarráðs og var kjörinn oddviti flokksins í síðasta mánuði. Hann segir að sveitastjórnarkosningarnar nú séu þær mikilvægustu eftir hrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×