Innlent

Rafmagn svarta kassans að klárast

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Leit að týndu flugvélinni frá Malasíu var haldið áfram í dag og tóku tíu flugvélar og níu skip þátt í leitinni. Leitarmenn eru þó að komast í tímaþröng þar sem rafmagn í svarta kassa vélarinnar dugir einungis í fimm daga.

Eftir að batteríin tæmast hættir kassinn að senda frá sér merki, sem mun gera leitina að honum mun erfiðari.

Frá þessu er sagt á vef Wall Street Journal.

Nú þegar fjórða vika leitarinn hefst, hefur hvorki tangur né tetur fundist af vélinni, sem hvarf þann 8. mars síðastliðinn.

Ástralía sér um að samræma leitaraðgerðir og gert er ráð fyrir því að veður á leitarsvæðinu muni hamla leitinni á næstu dögum. Í dag munu leitarmenn frá sjö þjóðum leita á stóru svæði suður Indlandshafs.

Tony Abott, forsætisráðherra Ástralíu, sagði í gær að ekki væri verið að draga úr leitaraðgerðum. Þess í stað væri verið að auka við þær. „Ef hægt er að leysa þessa ráðgátu, þá munum við gera það,“ sagði Abott.

Leitarmönnum reiknast að eftir um fimm daga muni batterí svarta kassa vélarinnar klárast. Eftir það mun leitin verða mun erfiðari. WSJ bendir á að leitin að svarta kassa flugvélarinnar sem fórst á milli Brasilíu og Frakklands hafi tekið nærri því tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×