Innlent

Vínið dýra sem Englar alheimsins drukku á Grillinu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér er Wilhelm með flösku af Chateau Moton Rothschild um miðjan níunda áratug síðustu aldar.
Hér er Wilhelm með flösku af Chateau Moton Rothschild um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Vísir/Aðsent
„Hér held ég á flösku af Chateau Moton Rothschild 1982, víninu góða sem Englar alheimsins skoluðu matnum niður með,“ segir Wilhelm Wessman, fyrrum framkvæmdastjóri Hótels Sögu og Grillsins.

Vísir sagði frá eftirminnilegri sögu í gær, sem Einar Már Guðmundsson gerði góð skil í bók sinni Englum alheimsins. Sagan varð nánast ódauðleg eftir að kvikmynd byggð á bókinni kom út:

Í einu atriði myndarinnar fara þrír vistmenn á Kleppi á Grillið og panta allt það dýrasta og fínasta á matseðlinum. Þegar kemur að því að borga segir einn þeirra: „Við erum allir vistmenn á Kleppi, verið svo vinsamlegir að hringja á lögregluna strax.“ 

Nú hefur fundist mynd af Wilhelm með vínið sem vistmennirnir drukku með matnum á Grillinu. En vínið var það dýrasta sem boðið var upp á á Grillinu. 

Fór á borð Wilhelms

Þegar þetta gerðist í raun, lenti málið á borði Wilhelms – framkvæmdastjórans á Hóteli Sögu. Hann ákvað að greiða reikninginn fyrir vistmennina þrjá og bað lögregluna um að bíða eftir þeim í andyri hótelsins – en ekki koma inn og handtaka þá fyrir framan aðra gesti. Lögreglumennirnir keyrðu vistmennina svo á Klepp, eftir þessa dýrindis máltíð – eina þá frægustu sem sögur fara af.

Flottasti árgangurinn

Wilhelm segir þennan árgang af Chateau Moton Rothschild 1982 vera einstakan – og því greinilegt að vistmennirnir þrír hafi verið miklir smekksmenn. „1982 árgangurinn er einn besti árgangur Bordeoux-vína á síðustu öld og flasakan af þessu víni kostaði 26.800 krónur þá.“

Myndin hér að ofan er tekin á níunda áratugi síðustu aldar. Þá sá Wilhelm um hótel, veitinga og ráðstefnurekstur Hótels Sögu.

Frumkvöðull í innflutningi á víni

Umhverfið í hótelrekstri og skemmtanabransanum var allt annað en það er í dag. Til dæmis var allur innflutningur á víni í höndum ríkisins.

„Það var ekki til neitt af vínum á árum áður. Nema einhverjar fjórar til fimm rauðvínstegundir, tvær rósavínstegundir og eitthvað svipað af hvítvíni – og allar mismunandi vondar,“ segir Wilhelm og heldur áfram:

„Og síðan fengum við veitingamenn – eftir mikla baráttu – leyfi til að flytja inn vín sjálfir, sem ekki var selt í ríkinu. Þetta var allt á eigin ábyrgð. Við þurftum að taka áhættuna af því, ef vín var skemmt eða seldist ekki. Og álagning á vínum var ekki nema fimmtíu prósent, en nú leggja menn á um 300 prósent.“


Tengdar fréttir

Greiddi reikninginn fyrir Engla alheimsins á Grillinu

"Þeir pöntuðu flottustu réttina og drukku Chateau Monton Rothschild, árgang 1982. En 1982 árgangurinn er einn besti árgangur Bordeoux-vína á síðustu öld," segir fyrrum framkvæmdastjóri Hótels Sögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×