Innlent

Niðurdæling brennisteinsvetnis að hefjast

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/valli
Á næstu dögum hefst niðurdæling brennisteinsvetnis, sem hreinsað hefur verið úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Tilraunarekstur hreinsistöðvar er hafinn og við það breytist tilhögun niðurrennslis vinnsluvatns frá virkjuninni og getur það valdið hreyfingu á jarðlögum.

Orkuveita Reykjavíkur mun framvegis birta tilkynningar um slíkar breytingar, en þær geta aukið líkur á jarðskjálftum sem gætu fundist í byggð.

Fram kemur í tilkynningunni að nú sé búið að ræsa hreinsistöð sem mun skilja brennisteinsvetni úr gufuútblæstri einnar af sex vélum Hellisheiðarvirkjunar.

Þetta sé þróunar- og nýsköpunarverkefni sem miðar að því að draga úr lyktarmengun frá virkjuninni á sem umhverfisvænstan og hagkvæmastan hátt.

Hreinsunarverkefnið byggist á niðurstöðum vísindarannsókna sem staðið hafa við virkjunina allt frá árinu 2007. Gangi rekstur stöðvarinnar eins og vænst er, verður hún stækkuð.

Slík ákvörðun verður ekki tekin fyrr en að fenginni eins árs rekstrarreynslu.

Þess vegna hefur Orkuveitan farið fram á undanþágu frá hertum ákvæðum reglugerðar um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti, sem ganga eiga í gildi í sumar.

Reksturinn stenst núgildandi mörk í reglugerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×