Innlent

Eimskip sendi lækni á Herjólfsmenn sem tilkynntu veikindi

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
"Trúnaðarlæknir hafði samband við heilsugæsluna í Vestmannaeyjum og í samvinnu við hana forvitnaðist hann um heilsu áhafnarmeðlima,“ segir  Ólafur William Hand , markaðs- og upplýsingafulltrúi Eimskipafélagsins.
"Trúnaðarlæknir hafði samband við heilsugæsluna í Vestmannaeyjum og í samvinnu við hana forvitnaðist hann um heilsu áhafnarmeðlima,“ segir Ólafur William Hand , markaðs- og upplýsingafulltrúi Eimskipafélagsins. VÍSIR/GVA
Eimskipafélag Íslands hafði samband við trúnaðarlækni félagsins til að kanna með heilsu þeirra starfsmanna Herjólfs sem tilkynntu veikindi í morgun.

Frumvarp Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um að fresta verkfallsaðgerðum undirmanna á Herjólfi til 15. september var samþykkt á Alþingi í gær.

„Trúnaðarlæknir hafði samband við heilsugæsluna í Vestmannaeyjum og í samvinnu við hana forvitnaðist hann um heilsu áhafnarmeðlima,“ segir Ólafur William Hand, markaðs- og upplýsingafulltrúi Eimskipafélagsins.

Í einhverjum tilfellum hafi áhafnarmeðlimir annað hvort verið boðaðir á heilsugæsluna eða læknir fór heim til þeirra. „Ég veit ekki nákvæmlega hvernig því var háttað,“ segir Ólafur.

Hann segir fulla ástæðu til þess að athuga með heilsu áhafnarmeðlima þegar svona margir sem starfi um borð í einu skipi tilkynni veikindi. Aðrir áhafnameðlimir og farþegar skipsins þurfi að vita hvað það er sem veldur svona skyndilegum veikindum hjá jafn mörgum.

„Okkur er annt um heilsufar áhafnarmeðlima og við viljum gera það sem við getrum til að þeir nái heilsu og komast að því hvað það er sem hrjáir þá,“ segir Ólafur.

Þið eruð ekki að kalla til læknis vegna gruns um að áhöfnin hafi gert sér upp veikindi?

„Við viljum ekki gera mönnum það upp að þeir séu að gera sér upp veikindi og við tökum því mjög alvarlega að áhöfnin veikist.“

Í litlu samfélagi eins og um borð í skipi verði að komast að því ef um sé að ræða matareitrun eða pestir.  

Hvað ætlið þið að gera ef í ljós kemur að starfsmenn voru ekki raunverulega veikir?

„Við erum ekki farin að hugsa svo langt,“ segir Ólafur. „Ég neita að trúa því að menn séu að gera sér upp veikindi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×