Innlent

Bláklæddir unglingar í tilefni alþjóðadags einhverfu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Flestir unglinganna í Öskju mættu í bláum fötum í dag.
Flestir unglinganna í Öskju mættu í bláum fötum í dag. MYND/ASKJA
Í tilefni alþjóðadags einhverfu sem er haldinn í dag var fólk hvatt til þess að klæða sig í blá föt.  Vinnustaðir voru jafnframt hvattir til þess að vera með blátt þema í þeim tilgangi að vekja athygli á málstaðnum og hvetja til umræðu um einhverfu.  

Starfsfólk og unglingar í félagsmiðstöðinni Öskju í Reykjavík mættu í bláum fötum í tilefni dagsins. Askja er félagsmiðstöð fyrir fatlaða unglinga. Að sögn Andreu Bergmann, yfirþroskaþjálfa í Öskju, mættu flestir í bláum fötum.

Dagurinn var nýttur til þess að fjalla um staðalímyndir einhverfunnar að sögn Andreu. Fólk hafi mismunandi hugmyndir um hvað einhverfa sé og oft sé gengið út frá því meðal annars að einhverfir vilji ekki láta snerta sig og geti ekki horft í augu fólks. Einnig að einhverfir séu allir með snilligáfu á einhverju sviði.

Einhverfir eru þó eins og allir aðrir, mismunandi, og enginn einstaklingur er eins. „Við spjölluðum saman, bæði starfsfólkið,  og það við krakkana,“ segir Andrea.

Með naglalakk til að berjast gegn staðalímyndum kynjanna.MYND/ASKJA
Strákarnir, bæði starfsmenn og unglingsdrengir, mættu líka margir hverjir með naglalakk.

„Strákar úr Vættaskóla í Reykjavík hvöttu til þess fyrr á árinu að karlkynsstarfsmenn og drengir sem sækja félagsmiðstöðvar í borginni tæku þátt í herferð gegn staðalímyndum kynjanna. Þeir skoruðu á sjálfa sig og aðra að vera með naglalakk um óákveðinn tíma.“

„Við í Öskju ákváðum að slá þessu saman við alþjóðadaginn,“ segir Andrea og margir strákanna mættu með blátt naglalakk. „Við keyptum líka naglalakk fyrir þá sem ekki mættu naglalakkaðir og það eru nánast allir í Öskju með bláar neglur í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×