Innlent

Fasteignaverð hækkar í höfuðborginni

Birta Björnsdóttir skrifar
Samkvæmt nýjum útreikningum frá hagfræðideild Landsbanka Íslands, sem unnar voru fyrir Morgunblaðið, fer raunverð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu hækkandi. Það er nú svipað og það var um mitt ár 2009. En eru þetta góðar fréttir?

„Það fer auðvitað eftir því hvort við erum að horfa til þeirra sem eiga fasteign eða þeirra sem eru á leið inn á fasteignamarkaðinn. Það er þó yfirleitt talið styrkleikamerki þegar fasteignaverð hækkar í samræmi við annað í samfélaginu,“ segir Ari Skúlason, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbanka Íslands.

Raunvirði íbúða sem keyptar voru frá aldamótum og fram til 2004 hefur þá ýmist hækkað eða náð upprunalegu verðgildi. Það sama gildir hinsvegar ekki m þær fasteignir sem keyptar voru á árunum 2007 og 2008. En hvernig horfir þróunin við þeim sem eru á leið inn á fasteignamarkaðinn í fyrsta sinn?

„Það er auðvitað þannig að aðgengi að lánsfé er miklu erfiðara en hinsvegar má segja að verð í sögulegu samhengi er ennþá tiltölulega lágt,” segir Ari.

En hverju spá sérfræðingarnir um þróun fasteignaverðs á næstu mánuðum og árum?

„Við spáum því að raunverð íbúðahúsnæðis fari eitthvað hækkandi. Við ímyndum okkur að verð á nýbyggingum muni toga verð á húsnæði almennt upp. Þetta stefnir allt í átt til hækkunar. Við reiknum einnig með því að það verði töluverður hagvöxtur og kaupmáttarauki á næstu árum og verð fasteigna helst yfirleitt mjög vel í hendur við það,“ segir Ari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×